Ísafjarðarbær: umsögn um strandsvæðaskipulag fer til bæjarstjórnar

Strandsvæðaskipulagið fyrir Jökulfirðina og Aðalvík.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar tók fyrir í gær öðru sinni tillögu skipulags- og mannvirkjanefndar að umsögn um strandsvæðaskipulag fyrir Vestfirði. Nefndin telur það ekki samræmast því að Hornstrandir eru friðlýst svæði að heimila uppbyggingu á hafsæknum iðnaði í Jökulfjörðum og leggst gegn fiskeldi á því svæði.

Var ákveðið að vísa málinu til afgreiðslu í bæjarstjórn með þeirri umsögn bæjarráðs að það tekur undir umsögn skipulags- og mannvirkjanefndar, þó með lítilsháttar breytingum. Bæjarráð fól bæjarstjóra að vinna frekar að umsögninni í samræmi við umræður á fundinum og leggja uppfærða umsögn um standsvæðaskipulag Vestfjarða fyrir bæjarstjórn til samþykktar. Ekki kemur fram hverjar breytingar eru. Bæjarstjórnin kemur úr sumarfríi á fimmtudaginn, þann 1. september.

Í síðustu viku tók bæjarráð málið fyrir og var þá bókað  að málið væri lagt fram til samþykktar í bæjarráði, í sumarleyfi bæjarstjórnar.

Öll gögn á borðið fyrir ákvörðun

Í júní 2020 ályktaði bæjarstjórnin um fiskeldi í Jökulfjörðum vegna fyrirspurnar Sjávarútvegsráðherra sem vildi fá afstöðu bæjarstjórnar til hugmynda um það hvort rétt væri að takmarka eða banna fiskeldi eða ákveðnar eldisaðferðir í sjókvíum í Jökulfjörðum á þann veg að Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar legði áherslu á að öll gögn verði lögð á borðið, þ.m.t. áhættumat og burðarþol fjarðanna ásamt samráði við íbúa svo hægt væri að taka upplýsta ákvörðun. 

DEILA