Ísafjarðarbær: telur ekki þörf á umhverfismati vegna ásætuvarna

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðabæjar telur að nægjanlega sé gerð grein fyrir notkun ásætuvarna í sjókvíum Arctic Fish í Arnarfirði í framlögðum gögnum og telur að framkvæmdin kalli ekki á umhverfismat.

Tilefnið er fyrirspurn frá Skipulagsstofnun sem fékk erindi frá eldisfyrirtækinu og kannar hvort umsagnaraðilar telji gögnin nægileg áður en ákvörðun er tekin um að leyfa þesar ásætuvarnir.

Ásætur á kvíum eru að mestu gróður og aðrar lífverur sem setjast á net og búnað eldiskvía og vaxa þar og valda auka álagi á búnaðinn. Ásætur og háþrýstiþvottur á nótum til að losa ásætur skapa streitu, skaða og geta leitt til affalla á eldisfiskum. Koparásætur geta komið í stað fyrir stöðugan háþrýstiþvott á nótum.

Arctic Sea Farm áformar að nota ásætuvarnir sem innihalda koparoxíð á nætur eldiskvía fyrirtækisins í Arnarfirði. Notkun ásætuvarna sem innihalda koparoxíð krefst breytingar á starfsleyfi.

Arctic Fish hefur kannað möguleg umhverfisáhrif ásætuvarna sem innihalda koparoxíð á umhverfisþættina lífríki í sjó og heilsa manna. Áhrif á lífríki í sjó eru metin talsvert neikvæð og áhrif á heilsu manna eru metin óveruleg. Það er mat framkvæmdaraðila að áhrifin séu ekki þess eðlis að framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum.

Verkfræðistofn Efla vann skýrsluna.

DEILA