Ísafjarðarbær: tekur á sig 1,5 m.kr. kostnað vegna Sindragötu 4a

Sindragata 4a. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt tillögur sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs sem lagði til að bærinn léti lagfæra galla og vankanta á frágangi undir gluggum á nýbyggingunni Sindragötu 4a Ísafirði. Sveitarfélagið var ábyrgt sem söluaðili fasteignanna segir í minnisblaði sviðsstjórans. Taldi hann brýnt að bregðast við umræddum ágöllum þar sem verulegur kostnaðarauki getur verið vegna þess að umfang mun aukast verði ekki brugðist við með viðgerðum. Áætlaður kostnaður vegna viðgerðanna er 1,5 m.kr.

Sviðsstjóri vill ekki draga fram ályktun um hvort ábyrgðin liggi á hönnuð eða verktaka, til þess að fá úr því skorið þyrfti að fá óháðan aðila til þess að gera mat (dómkvaddur matsmaður) kostnaður við slíkt mat getur verið 1-1,2 m. kr.

Niðurstaðan varð að áfellur verði settar á, til varnar frekari skemmdum og að Ísafjarðarbær greiðir kostnaðinn. Verði frekara tjón að ári verður dómkvaddur matsmaður til þess að meta umfang.

DEILA