Ísafjarðarbær: styrkir ekki Tungumálatöfra

Frá námskeiði Tungumálatöfra,

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur synjað verkefninu Tungumálatöfra um styrk að fjárhæð 550.000 kr. nú í ár og bendir á að ekki var gert ráð fyrir fjárútlátum vegna þessa í fjárhagsáætlun ársins 2022.

Tungumálatöfrar eru árlegt sumarnámskeið sem haldin eru á vegum félags áhugafólks um fjöltyngi. Annars vegar Tungumálatöfra fyrir 5 – 9 ára börn í Edinborgarhúsinu og hins vegar Töfraútivist í Önundarfirði fyrir 10 – 14 ára. Sótt var um 400.000 kr. vegna erlendra aðstoðarmanna sem koma úr röðum innflytjenda og kr 150.000 vegna ferðakostnaðar 10 krakka frá Súgandafirði.

Í bókun bæjarráðs segir að Ísafjarðarbær hafi verið stór og mikilvægur bakhjarl Tungumálatöfra frá upphafi, en síðustu ár „hefur verið tekin ákvörðun um lækkun fjárstyrks í áföngum í ljósi þess að verkefnið hefur náð góðri fótfestu og fjárstuðningi úr öðrum sjóðum. Bæjarráð telur mikilvægt að sveitarfélagið hafi svigrúm sé til styrkveitinga til nýsköpunar félagasamtaka og einstaklinga, þar til verkefni hafa náð góðri fótfestu.“

Fram kemur í minnisblaði sviðsstjóra skólasviðs að sveitarfélagið hafi styrkt verkefnið frá 2017 til 2021. Fjárhæð styrksins hefur verið frá 250 þús. kr upp í 600 þús kr. Árið 2019 var samþykkt að gera þriggja ára samstarfssamning og að ekki yrði um frekari styrki að þeim tíma loknum. Samningurinn var ekki gerður en styrkir veittir til og 2021.

DEILA