Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar vill endurskoða reit SN23 milli Ísafjarðar og Súðavíkur þar sem gert er ráð fyrir fiskeldi í tilllögu Svæðisráðs um strandsvæðaskipulag fyrir Vestfirði. Nefndin telur ljóst að siglingaleiðin milli Ísafjarðar og Vigur lengist umtalsvert frá því sem nú er sem bæði lengir ferðir og eykur kostnað. Töluverð umferð skipa er um reitinn segir í greinargerð Svæðisráðs og eldið mun hafa áhrif þar sem ekki má sigla nær jaðri sjókvíaeldisstöðva en 50 metra samkvæmt reglugerð um fiskeldi.
Í umsögn Skipulags- og mannvirkjanefndar er lögð áhersla á blómlega „ferðaþjónusta sem byggir á farþegaflutningum frá Ísafirði inn í Vigur.“
Skipulags- og mannvirkjanefnd beinir því til svæðisráðs hvort ekki sé skynsamlegt að endurskoða reitinn í samráði við hagsmunaaðila, bæði þá aðila sem sótt hafa um leyfir til fiskeldis á reitnum og þá sem hafa stundað siglingar milli Ísafjarðar og Vigur í áratugi.
Þrátt fyrir að burðarþolsmat eldis fyrir Ísafjarðardjúp er 30.000 tonn af frjóum laxi er einungis heimilt að ala 12.000 tonn þar sem eldi er bannað innan línu frá Ögurnesi yfir á Snæfjallaströnd. Verði reitur SN23 felldur út eða minnkaður til þess að minnka áhrif á siglingaleiðina milli Ísafjarðar og Vigur gæti það minnkað enn frekar heimilað eldi.