Ísafjarðarbær: Heilsugæslan á landsbyggðinni er undirmönnuð

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, Ísafirði.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur tekið undir bókun bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar um stöðu mönnunar heilbrigðisstarfsfólks á heilsugæslustöðvum á landsbyggðinni. Í bókuninni segir að ekki sé jafnt aðgengi landsmanna að heilbrigðisþjónustu vegna undirmönnunar. Auka þurfi öryggi sjúklinga m.a. með bættu sjúkraflugi með sjúkraþyrlu og því að innanlandsflugvöllurinn verði tryggður til framtíðar í Vatnsmýrinni í Reykjavík

Bókn bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar:

„Bæjarstjórn Vestmannaeyja áréttar að jafnt aðgengi allra landsmanna að heilbrigðisþjónustu á að vera grundvallaratriði í samfélagsuppbyggingunni. Sú er hins vegar ekki raunin fyrir fólk á landsbyggðinni í dag. Heilsugæslan á landsbyggðinni er undirmönnuð og aðgengi íbúa að grunnheilbrigðisþjónustu er skert. Það þarf að búa þannig um hnútana að heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni geti mannað stöður heilbrigðisstarfsfólks þannig að þær geti veitt þá
grunnheilbrigðisþjónustu sem þeim er ætlað. Þá liggur fyrir að flestar flóknar aðgerðir eru í dag einungis framkvæmanlegar á Landspítalanum. Það þarf að auka öryggi sjúklinga á landsbyggðinni með því að styrkja og breyta fyrirkomulagi sjúkraflugs m.a. með tilkomu sérhæfðrar sjúkraþyrlu og ákveða þarf staðsetningu flugvallar í Vatnsmýrinni til framtíðar. Þannig tryggjum við að allir landsmenn geti notið þjónustu Landspítalans með fullnægjandi hætti.“

DEILA