Ísafjarðarbær: bæjarráð hyggst afgreiða umsögn um strandsvæðaskipulag

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar. mynd: isafjordur.is

Tillaga skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar að umsögn Ísafjarðarbæjar um tillögu að Strandsvæðaskipulagi Vestfjarða var lögð fram í bæjarráði á mánudaginn. Segir í bókun bæjarráðs að málið sé lagt nú fram til samþykktar í bæjarráði, í sumarleyfi bæjarstjórnar.

Afgreiðslu málsins var frestað og verður það tekið fyrir að nýju í bæjarráði á næsta fundi.

Sumarleyfi bæjarstjórnar lýkur ekki fyrr en 1. september og hefur þá staðið yfir í hálfan þriðja mánuð. Á meðan bæjarstjórnin er í sumarleyfi tekur bæjarráð yfir hlutverk hennar og getur afgreitt mál endanlega.

Í bæjarstjórn sitja 9 bæjarfulltrúar með atkvæðisrétti, en í bæjarráði eru þrír bæjarfulltrúar sem hafa atkvæðisrétt og einn sem er áheyrnarfulltrúi.

Í tillögunni sem fyrir liggur segir að skipulags- og mannvirkjanefndin telji óþarfa að burðarþolsmeta Jökulfirði þar sem það er skýr afstaða nefndarinnar að fiskeldi verði ekki leyft í Jökulfjörðum.

DEILA