Hvern er Vg að fífla?

Margir, þar á meðal undirritaður bjóst við jákvæðum breytingum þegar Kristján Þór Júlíusson stóð upp úr stóli sjávarútvegsráðherra og í stólinn settist í hans stað Svandís Svavarsdóttir þingmaður Vg.

Reynslan af valdatíma Vg í ráðuneytinu eru gríðarleg vonbrigði fyrir þá sem vilja sjá einhver jákvæð skref séu tekin í átt til; réttlætis, almannahagsmuna og byggðasjónarmiða.

Matvælaráðherra kom í gegnum þingið að tveimur nýjum nytjategundum þ.e. sæbjúgum og sandkola voru settar inn í gjafakvótakerfið. Það var gert með stuðningi allra þingmanna Vg, nema þingmanns flokksins í Norðvestur kjördæminu, sem sat hjá við afgreiðslu málsins.  Það sem er afar áhugavert við þessa kvótasetningu er að Samherjaráðherrann Kristján Þór Júlíusson, kom málinu ekki í gegn á síðasta kjörtímabili m.a. vegna andstöðu þingflokks Vg! 

Vg lofaði hátíðlega fyrir síðustu og þar síðustu kosningar að stórefla strandveiðar, en niðurstaðan var sú að matvælaráðherra rak strandveiðiflotann í land þann 21. júlí sl.

Öll mál sem varða þjóðarhag miklu m.a. að sjá til þess að fiskur sé ekki seldur í gegnum „sölufélög“ í skattaskjólum, lögbundið kvótaþak sé virt og að stórútgerðin sé ekki að fá til sín bróðurpartinn af byggðakvótanum, virðist eiga að salta í ofvöxnu nefndarstarfi næstu árin. Ef farið er yfir hverja matvælaráðherra skipaði í risanefndina til að koma á „réttlæti í umdeildu kerfi“ þá er augljóst að ríflega 7/10 þeirra sem skipaðir voru, eru fylgjandi algerlega óbreyttu kerfi, á meðan mikill meirihluti þjóðarinnar vill breytingar og hlutfallið er eflaust enn hærra meðal almennra flokksmanna í Vg.

Grænt gervistökk matvælaráðherra

Gjörðir forystu Vg og ekki síður það sem látið hefur verið ógert í sjávarútvegsmálum er farið líta verulega illa út, ekki síst fyrir ráðherrann sem varaði á sínum tíma við, banvænni blöndu viðskipta og stjórnmála. Vg tekur nú við hverri tillögunni af fætur annarri frá auðmannaklúbbnum SFS og gerir umsvifalaust að lögum eða reglum samfélagsins m.a. með því að bæta í gjafakvótakerfið og loka á strandveiðar.

Matvælaráðherra boðaði með miklum lúðrablæstri tvær tillögur að lagafrumvörpum í sjávarútvegsmálum sem „Grænt stökk“.

Eflaust hljóma tillögurnar í fyrstu vel í eyrum stuðningsmanna Vg og almennings sem er umhugað um umhverfismál, en fyrir þá sem þekkja betur til er augljóst, að annað hvort er um ómerkilega sýndarmennsku að ræða eða þá enn eitt frumvarpið af færibandi SFS inn í ráðuneytið og það í grænum umbúðum.

Tillagan um að greiða fyrir rafvæðingu strandveiðibáta felur í sér að strandveiðibátar sem leggja í hátt í 50 milljón kr.  fjárfestingu, við að breyta bátum úr því að vera knúnir jarðefnaeldsneyti og rafvæðast, fá að veiða 100 kg meira í hverri veiðiferð en ella. Væntanlega er síðan gert ráð fyrir að sú aukning verði tekin af öðrum strandveiðibátum.  Hvern er verið að fífla með svona tillögugerð?

Það er greinilegt að áformin um breytingu á lögum í þágu stækkun vistvænni „smábáta“ kemur beint af færibandi SFS.  Í lögum eru ákveðnar takmarkanir sem gilda um togara þannig að þeim er gert að stunda veiðar fyrir utan 12 mílur frá landi.  Engu að síður er minni togskipum undir ákveðinni lengd og vélarafli heimilað að stunda veiðar í allt að 4 mílna fjarlægð frá landi. Græna stökk ráðherra felur í sér að rýmka allar þessar reglur um afl og lengd, með það fyrir augum að ná fram meintum olíusparnaði.

Þessi áform ráherra Vg um að hleypa stærri og öflugri togskipum inn á grunnslóðina, uppfylla eflaust villtustu drauma Þorsteins Más, en hljóta að líta verulega illa út fyrir hinn almenna kjósenda Vinstrihreyfingarinnar græns framboð og það undir yfirskini aðgerða í loftslagsmálum.

Ef Vg vill raunverulega greiða fyrir vistvænum veiðum, þá er einfaldasta og öruggasta leiðin að tryggja jafnræði í greininni, en þá er engin spurning að vegur vistvænna handfærabáta myndi aukast, þar sem bæði eldsneytisnotkun og annar tilkostnaður þeirra er hlutfallslega minni en t.d. togskipa.

Sigurjón Þórðarson, líffræðingur

DEILA