Galdrabrugg á Hólmavík

Á Hólmavík hefur verið sett á laggirnar nýtt fyrirtæki, Galdur Brugghús, sem ætlar sér að framleiða göldróttan bjór fyrir heimamenn og ferðamenn. Að baki verkefninu stendur fjölbreyttur hópur heimamanna sem sér þetta sem leið til að fjölga atvinnutækifærum og styrkja ferðaþjónustu og framleiðslu á svæðinu. Hugmyndasmiðir verkefnisins eru Finnur Ólafsson og Aleksander Kuzmanic, en þeir eru báðir miklir áhugamenn um bjór, blómstrandi mannlíf og tækifæri í ferðamennsku.

Hugmyndin að hafa brugghús á Hólmavík hefur lengi verið til staðar, en nú hefur verið ákveðið að láta slag standa. Verkefnið er samstarfsverkefni einstaklinga og stofnana og meðal þeirra sem standa að baki því eru Hólmadrangur, veitingastaðurinn Café Riis og Galdrasýning á Ströndum. Ólafur Númason, grafískur hönnuður og stafrænn markaðssérfræðingur sem er fæddur og uppalinn á Hólmavík tekur þátt í verkefninu. Í heild er þetta er fjölbreyttur hópur þar sem hver hefur eitthvað fram að færa sem nýtist verkefninu. Það er vilji aðstandenda verkefnisins að eignarhald á félaginu haldist á svæðinu til að það nái að þjóna svæðinu sem best. Þess vegna verður heimamönnum boðin fyrst þátttaka í verkefninu og koma fyrirtækinu á legg saman.

Búið er að semja um kaup á 2.000 lítra bruggverksmiðju sem var í eigu Steðja og fer afhending fram 1. október næstkomandi. Búið er að ráða bruggmeistara sem hefur unnið við þá verksmiðju. Aðstaða verður hjá Hólmadrang fyrir starfsemina og er vinna í fullum gangi að gera rýmið klárt. Stefnt er að því að vera tilbúin með bjór til sölu fyrir jól. 

Í fréttatilkynningu frá Galdrabruggi kemur fram að öllum sem vilja kynna sér verkefnið betur og fá smjörþefinn af því sem er í vændum, er boðið að koma á kynningu í Hlein í Norðurfjörunni á Hólmavík, laugardaginn 3. september, klukkan 16. 

DEILA