Þann 21. júlí sl. voru strandveiðar stöðvaðar, 40 dögum fyrr en lög um strandveiðar gera almennt ráð fyrir. Með því var fjölda starfa, einkum á landsbyggðinni og afkomu margra smábátasjómanna stefnt í voða, auk þess sem neytendamarkaður fyrir ferskan fisk frá Íslandi var tímabundið stórlaskaður. Þó sjávarútvegsráðherra og að einhverju leyti Alþingi beri mesta ábyrgð á þessum gjörningi er grunnur að þessari ákvörðun lagður annars staðar. Annars vegar með veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar og hins vegar í afstöðu og framgöngu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS, sem leynt og ljóst hafa frá upphafi viljað strandveiðar feigar.
Óskiljanleg tölfræði
Í byrjun júlí sendi sjávarútvegsráðherra fyrirspurn til Hafró þar sem stofnunin var spurð hvaða áhrif 1.000 tonna viðbótarveiði hjá færabátum á strandveiðum hefði á þorskstofninn við Ísland. Svar barst fljótt og án rökstuðnings: Neikvæð áhrif! Hafa verður í huga að 1.000 tonn eru um 0,1% af áætluðum þorskstofni í ár. Það þarf því ekki mikið til að ógna viðkomu í þessum stofni!
Um miðjan júni kynnti stofnunin ráðgjöf sína fyrir næsta fiskveiðiár þar sem m.a. kom fram að veiðistofn þorsks við Ísland væri 976.590 tonn. Hefur veiðistofninn samkvæmt tölum Hafró fallið úr 1.364.745 tonnum 2019 eða um 390.000 tonn þrátt fyrir að síðan hafi í einu og öllu verið veitt eftir ráðgjöf hvers árs. Það er auðvitað umhugsunarefni um ráðgjöfina en ég ætla að gera aðra hlið á þessum tölum að umræðuefni.
Hér er að mínu mati verið að fara á furðulegan og raunar óskiljanlegan hátt með tölur enda látið í veðri vaka að nákvæmnin í stofnmælingunni liggi á 6. eða 7. staf tölunnar (1 tonn af milljón er 0.0001%). Fróðlegt er að bera þessa nákvæmni í stofnstærð þorsksins saman við nákvæmni á mælingu á öðrum tegundum í dýraríki lands og sjávar. Samkvæmt upplýsingum hjá Náttúrufræðistofnun og Hafró eru spendýr á landi og í sjó talin í þúsundum eða tugþúsundum og má þar nefna, að hrefnur umhverfis landið eru taldar vera á bilinu 15.000-40.000 og heildarfjöldi hvala við Ísland er talinn vera 300-400 þúsund. Á landi eru refir taldir vera um 7.000 og hreindýr um 6.000 svo dæmi séu tekin um dýr sem ætti að vera tiltölulega auðvelt að telja. Af fuglum má svo bæta við, að straumendur eru sagðar 3.000-5.000 og álkustofninn var talinn vera um 300.000 pör fyrir um 15 árum.
Eins og fram kemur í þessum tölum eru frávik í þeim af stærðargráðunni 100-1.000, jafnvel 10.000 sem er a.m.k. 100-falt frávik sem Hafró fær á tonnafjölda í veiðistofni þorsks í meira en 750.000 ferkílómetra fiskveiðilögsögu Íslands. Flestum ætti þó að vera ljóst að auðveldara er að telja og/eða áætla stærð stofna spendýra í sjó og á landi og fugla á eða við landið en fiska í sjónum. Öll þessi talnaleikfimi Hafró er því fyrst og fremst blekkjandi, ekki síst fyrir almenning og fréttamenn því ekki trúi ég því að reiknimeistarar stofnunarinnar trúi sjálfir þessari ofurnákvæmni.
Æpandi þögn
Fyrir nokkrum áratugum var lífleg umræða meðal fiskifræðinga, sjávarlíffræðinga og margra annarra náttúruvísindamanna um rannsóknir á fiskistofnum og lífríki hafsins. Smám saman lögðust slík skoðanaskipti af og nú heyrir til algerra undantekninga að opinber umræða fari fram um málefnið og alls ekki með þátttöku fræðinga á Hafró. Á slík þögn sér trúlega ekki hliðstæðu í vísindasamfélaginu hvorki í háskólum eða opinberum rannsóknastofnunum innan langflestra vísindagreina. Nægir þar að nefna greinar eins og læknisfræði, hagfræði, veðurfræði, eldgosafræði og margar greinar loftslagsfræðanna að ekki sé talað um fjölmargar greinar félagsvísinda og stjórnmála. En Hafró þegir þunnu hljóði og svarar ekki gagnrýni. Ekki veit ég hvað veldur þessari þögn en það hvarflar að manni að samband sé milli hennar og þöggunarinnar sem ríkir í kringum stóru sjávarútvegsfyrirtækin, bæði meðal starfsmanna þeirra og jafnvel samfélaganna sem þau starfa í. Þar eru hagsmunirnir trúlega of miklir til að leyft sé að rugga nokkru sem tengist fiskveiðikerfinu, enda getur atvinnuöryggið og afkoman verið í hættu.
Það segir líka sína sögu um þögnina, að á kynningarfundi Hafrannsóknastofnunar 15. júní sl. um ráðgjöf næsta árs, þar sem mættu meira en 50 manns, þ.e. fréttamenn, hagsmunaaðilar í sjávarútvegi og sérfræðingar Hafró o. fl. komu nánast engar spurningar fram að lokinni kynningu um efnið. Aðeins formaður Landssambands smábátaeiganda tók til máls auk eins fyrrverandi yfirmanns á Hafró sem auðvitað vissi allt um efnið en sat fundinn með hatt SFS á höfði sem hann setti upp sl. vor. En annars var þögnin æpandi á þessum fundi.
Að rannsaka og meta sjálfan sig
Allt frá því að togararallið hófst 1985 hefur það verið grunnstærð í stofnmatinu á þorski ásamt reiknilíkönum og svo og svo mörgum óþekktum eða áætluðum forsendum. Þótt svona röll hafi tíðkast víða erlendis var það Hafró sem lagði grunn að því hér, t.d. með vali á veiðistöðum, árstíma, notkun veiðarfæra o.fl. Þrátt fyrir miklar breytingar í umhverfi hafsins síðan og verulega gagnrýni fiskimanna, hefur þessu ekki verið að ráði breytt. Þannig mótaði Hafró rannsókaaðferðirnar og hefur síðan ein séð um gagnaöflun. Allir útreikningar og líkanaþróun er á ábyrgð stofnunarinnar sem og endanlegt stofnstærðarmat. Loks kveður stofnunin upp dóma (kallað ráðgjöf) um leyfilegt veiðimagn hvers árs á grundvelli aflareglu sem líklega varð til á himnum og hefur því hlotið guðlega blessun og smurningu með „sveiflujöfnunaráburði“. Væri ekki ástæða til að kanna hvort heppilegt sé og eðlilegt að einn og sami aðilinn afli gagnanna, búi til forsendur, þrói rannsóknaaðferðirnar og annist útreikninga og loki síðan hringnum með því að legga dóm á eigið verk með ákvörðun á aflamagni næsta árs? Hliðstætt fyrirkomulag var ekki talið ásættanlegt í íslenska dómskerfinu fyrir um 30 árum og var því þá breytt.
Lokaorð
Eftir að hafa kynnst viðhorfi sjómanna og skipsstjórnarmanna í allmörg ár gagnvart ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar tel ég að breytinga sé þörf. Æ oftar er stofnuninni í þessum hópi líkt við fatalausa keisarann í einu frægasta ævintýri H.C. Andersens. Þá er ljóst að samkrull vísinda og stjórnmálalegra ákvarðana er afar óheppilegt fyrir rannsóknastofnun. Engum dettur í hug að fela Veðurstofunni stefnumótun og ákvarðanir um aðgerðir í loftslagsmálum né segja mönnum fyrir um varnir gegn eldgosum eða öðrum náttúruhamförum, þótt hún komi að því að leggja á þær áhættumat og miðla spám og öðrum gögnum. Með sama hætti og taka þurfti tillit til margra þjóðfélagslegra þátta annarra en sóttvarna í kóróna-faraldrinum þurfa fleiri atriði en áætluð (ágiskuð?) stærð fiskistofna að komast að þegar þessi mikilvæga og sameiginlega auðlind þjóðarinnar er nytjuð.
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um fiskveiðar.