Furðu­leg fisk­veiði­ráð­gjöf

Magnús Jónsson, fyrrv. Veðurstofustjóri.

Þann 21. júlí sl. voru strand­veiðar stöðvaðar, 40 dögum fyrr en lög um strand­veiðar gera al­mennt ráð fyrir. Með því var fjölda starfa, einkum á lands­byggðinni og af­komu margra smá­báta­sjó­manna stefnt í voða, auk þess sem neyt­enda­markaður fyrir ferskan fisk frá Ís­landi var tíma­bundið stórla­skaður. Þó sjávar­út­vegs­ráð­herra og að ein­hverju leyti Al­þingi beri mesta á­byrgð á þessum gjörningi er grunnur að þessari á­kvörðun lagður annars staðar. Annars vegar með veiði­ráð­gjöf Haf­rann­sókna­­stofnunar og hins vegar í af­stöðu og fram­­göngu Sam­taka fyrir­tækja í sjávar­út­vegi, SFS, sem leynt og ljóst hafa frá upp­hafi viljað strand­veiðar feigar.

Ó­skiljan­leg töl­fræði

Í byrjun júlí sendi sjávar­út­vegs­ráð­herra fyrir­spurn til Haf­ró þar sem stofnunin var spurð hvaða á­hrif 1.000 tonna við­bótar­veiði hjá færa­bátum á strand­veiðum hefði á þorsk­stofninn við Ís­land. Svar barst fljótt og án rök­stuðnings: Nei­kvæð á­hrif! Hafa verður í huga að 1.000 tonn eru um 0,1% af á­ætluðum þorsk­stofni í ár. Það þarf því ekki mikið til að ógna við­komu í þessum stofni!

Um miðjan júni kynnti stofnunin ráð­gjöf sína fyrir næsta fisk­veiði­ár þar sem m.a. kom fram að veiði­stofn þorsks við Ís­land væri 976.590 tonn. Hefur veiði­stofninn sam­kvæmt tölum Haf­ró fallið úr 1.364.745 tonnum 2019 eða um 390.000 tonn þrátt fyrir að síðan hafi í einu og öllu verið veitt eftir ráð­gjöf hvers árs. Það er auð­vitað um­hugs­unar­efni um ráð­gjöfina en ég ætla að gera aðra hlið á þessum tölum að um­ræðu­efni.

Hér er að mínu mati verið að fara á furðu­legan og raunar ó­skiljan­legan hátt með tölur enda látið í veðri vaka að ná­kvæmnin í stofn­mælingunni liggi á 6. eða 7. staf tölunnar (1 tonn af milljón er 0.0001%). Fróð­legt er að bera þessa ná­kvæmni í stofn­stærð þorsksins saman við ná­kvæmni á mælingu á öðrum tegundum í dýra­ríki lands og sjávar. Sam­kvæmt upp­lýsingum hjá Náttúru­fræði­stofnun og Haf­ró eru spen­dýr á landi og í sjó talin í þúsundum eða tug­þús­undum og má þar nefna, að hrefnur um­hverfis landið eru taldar vera á bilinu 15.000-40.000 og heildar­fjöldi hvala við Ís­land er talinn vera 300-400 þúsund. Á landi eru refir taldir vera um 7.000 og hrein­dýr um 6.000 svo dæmi séu tekin um dýr sem ætti að vera til­tölu­lega auð­velt að telja. Af fuglum má svo bæta við, að straum­endur eru sagðar 3.000-5.000 og álku­­stofninn var talinn vera um 300.000 pör fyrir um 15 árum.

Eins og fram kemur í þessum tölum eru frá­vik í þeim af stærðar­gráðunni 100-1.000, jafn­vel 10.000 sem er a.m.k. 100-falt frá­vik sem Haf­ró fær á tonna­fjölda í veiði­stofni þorsks í meira en 750.000 fer­kíló­metra fisk­veiði­lög­sögu Ís­lands. Flestum ætti þó að vera ljóst að auð­veldara er að telja og/eða á­ætla stærð stofna spen­dýra í sjó og á landi og fugla á eða við landið en fiska í sjónum. Öll þessi talna­leik­fimi Haf­ró er því fyrst og fremst blekkjandi, ekki síst fyrir al­menning og frétta­menn því ekki trúi ég því að reikni­meistarar stofnunarinnar trúi sjálfir þessari ofur­­­­ná­­kvæmni.

Æpandi þögn

Fyrir nokkrum ára­tugum var líf­leg um­ræða meðal fiski­fræðinga, sjávar­líf­fræðinga og margra annarra náttúru­vísinda­manna um rann­sóknir á fiski­stofnum og líf­ríki hafsins. Smám saman lögðust slík skoðana­skipti af og nú heyrir til al­gerra undan­tekninga að opin­ber um­ræða fari fram um mál­efnið og alls ekki með þátt­töku fræðinga á Haf­ró. Á slík þögn sér trú­lega ekki hlið­stæðu í vísinda­sam­­fé­laginu hvorki í há­skólum eða opin­berum rann­sókna­stofnunum innan lang­flestra vísinda­greina. Nægir þar að nefna greinar eins og læknis­fræði, hag­fræði, veður­fræði, eld­gosa­fræði og margar greinar lofts­lags­fræðanna að ekki sé talað um fjöl­margar greinar fé­lags­vísinda og stjórn­mála. En Haf­ró þegir þunnu hljóði og svarar ekki gagn­rýni. Ekki veit ég hvað veldur þessari þögn en það hvarflar að manni að sam­band sé milli hennar og þöggunarinnar sem ríkir í kringum stóru sjávar­út­vegs­fyrir­tækin, bæði meðal starfs­manna þeirra og jafn­vel sam­fé­laganna sem þau starfa í. Þar eru hags­munirnir trú­lega of miklir til að leyft sé að rugga nokkru sem tengist fisk­veiði­kerfinu, enda getur at­vinnu­öryggið og af­koman verið í hættu.

Það segir líka sína sögu um þögnina, að á kynningar­fundi Haf­rann­sókna­stofnunar 15. júní sl. um ráð­gjöf næsta árs, þar sem mættu meira en 50 manns, þ.e. frétta­menn, hags­muna­aðilar í sjávar­út­vegi og sér­fræðingar Haf­ró o. fl. komu nánast engar spurningar fram að lokinni kynningu um efnið. Að­eins for­maður Lands­sam­bands smá­báta­eig­anda tók til máls auk eins fyrr­verandi yfir­manns á Haf­ró sem auð­vitað vissi allt um efnið en sat fundinn með hatt SFS á höfði sem hann setti upp sl. vor. En annars var þögnin æpandi á þessum fundi.

Að rann­saka og meta sjálfan sig

Allt frá því að togara­rallið hófst 1985 hefur það verið grunn­stærð í stofn­matinu á þorski á­samt reikni­líkönum og svo og svo mörgum ó­þekktum eða á­ætluðum for­sendum. Þótt svona röll hafi tíðkast víða er­lendis var það Haf­ró sem lagði grunn að því hér, t.d. með vali á veiði­­stöðum, árs­tíma, notkun veiðar­færa o.fl. Þrátt fyrir miklar breytingar í um­hverfi hafsins síðan og veru­lega gagn­rýni fiski­manna, hefur þessu ekki verið að ráði breytt. Þannig mótaði Haf­ró rann­sóka­að­ferðirnar og hefur síðan ein séð um gagna­öflun. Allir út­reikningar og líkana­þróun er á á­byrgð stofnunarinnar sem og endan­legt stofn­stærðar­mat. Loks kveður stofnunin upp dóma (kallað ráð­gjöf) um leyfi­legt veiði­magn hvers árs á grund­velli afla­reglu sem lík­lega varð til á himnum og hefur því hlotið guð­lega blessun og smurningu með „sveiflu­jöfnunar­á­burði“. Væri ekki á­stæða til að kanna hvort heppi­legt sé og eðli­legt að einn og sami aðilinn afli gagnanna, búi til for­sendur, þrói rann­sókna­að­ferðirnar og annist út­reikninga og loki síðan hringnum með því að legga dóm á eigið verk með á­kvörðun á afla­magni næsta árs? Hlið­stætt fyrir­komu­lag var ekki talið á­sættan­legt í ís­lenska dóms­kerfinu fyrir um 30 árum og var því þá breytt.

Loka­orð

Eftir að hafa kynnst við­horfi sjó­manna og skips­stjórnar­manna í all­mörg ár gagn­vart ráð­gjöf Haf­rann­sókna­stofnunar tel ég að breytinga sé þörf. Æ oftar er stofnuninni í þessum hópi líkt við fata­lausa keisarann í einu frægasta ævin­týri H.C. Ander­sens. Þá er ljóst að sam­krull vísinda og stjórn­mála­legra á­kvarðana er afar ó­heppi­legt fyrir rann­sókna­stofnun. Engum dettur í hug að fela Veður­stofunni stefnu­mótun og á­kvarðanir um að­gerðir í lofts­lags­málum né segja mönnum fyrir um varnir gegn eld­gosum eða öðrum náttúru­ham­förum, þótt hún komi að því að leggja á þær á­hættu­mat og miðla spám og öðrum gögnum. Með sama hætti og taka þurfti til­lit til margra þjóð­fé­lags­legra þátta annarra en sótt­varna í kóróna-far­aldrinum þurfa fleiri at­riði en á­ætluð (á­giskuð?) stærð fiski­stofna að komast að þegar þessi mikil­væga og sam­eigin­lega auð­lind þjóðarinnar er nytjuð.

Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um fiskveiðar.

DEILA