Forsætisráðherra: réttar og farsælar ákvarðanir fyrir almenning

Katrín Jakobsdóttir formaður Vg á flokksráðsfundinum á Ísafirði. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra kom víða við í ræðu sinni á flokksráðsfundi Vinstri grænna á Ísafirði á laugardaginn. Hún leit yfir farinn veg og minntist á vandasamt hlutverk stjórnvalda í covid19 faraldrinum. Niðurstaða hennar var að „þegar litið er á reynsluna – bæði af sóttvarnaráðstöfunum og efnahagsaðgerðum – held ég að ákvarðanirnar hafi heilt yfir reynst réttar og farsælar fyrir íslenskan almenning.“

 

Ákvarðanir byggðar á bestu þekkingu – ekki kreddum

„Ég ætla ekki að dvelja við mikilvægi þess að hafa vísindi og þekkingu að leiðarljósi við ákvarðanatöku í heimsfaraldri – en minni á að hið sama á við á öllum tímum. Það skiptir máli að við byggjum okkar ákvarðanir á bestu mögulegu þekkingu – ekki kreddum sem byggja á einfaldri svart-hvítri heimssýn. Þar með er ég ekki að segja að þessar aðgerðir hafi orðið til í pólitísku tómarúmi – þvert á móti. Þær voru ákveðnar með almannahagsmuni að leiðarljósi og þá skýru sýn að vernda líf og heilsu og tryggja afkomu almennings og hamingju.“

Skynsamleg viðbrögð stjórnvalda hafi orðið til þess að verja störf og kaupmátt sem aftur orðið til þess að atvinnulífið tók hratt við sér þegar sóttvarnaraðgerðum lauk.

„Reynslan sýnir okkur hversu árangursríkt það var að beita ríkisfjármálunum með skynsömum hætti til að verja störf og tryggja afkomu heimila og fyrirtækja. Þetta sjáum við meðal annars í því að störfum hefur fjölgað og atvinnuleysi minnkar hratt, kaupmáttur hefur  styrkst á undanförnum árum, skuldastaðan er góð og fjárhagserfiðleikar og vanskil hafa til þessa ekki aukist.

Vegna vel heppnaðra aðgerða stjórnvalda var atvinnulífið allt í stakk búið til að taka hratt og örugglega við sér þegar sóttvarnaráðstafanir voru felldar niður og nýleg þjóðhagsspá Hagstofunnar gerir ráð fyrir að hagvöxtur í ár verði ríflega 5%. Viðspyrna ferðaþjónustunnar hefur verið öflug og verulegur stígandi hefur verið í komum erlendra ferðamanna það sem af er ári. Útlit er fyrir að komur erlendra ferðamanna í ár fari fram úr bjartsýnustu spám.“

DEILA