Flateyri: unnið að uppsetningu ofanflóðagrinda

Unnið er að því að setja upp snjósöfnunargrindur á Eyrarfjalli fyrir ofan Innra-Bæjargil og Skollahvilft, en þaðan koma snjóflóðin sem falla í átt að Flateyri. Með því á að minnka snjómagnið sem safnast þar upp og minnka líkurnar á því að flóð falli. Þetta er gert að tillögu Verkís frá 2021 til að bæta snjóflóðavarnir. Þetta hefur verið prófað á Patreksfirði og segir í tillögu Verkís að ávinningurinn af þessari aðgerð gæti orðið mikill en talsverð óvissa er um virkni grinda.

Í fundargerðum verkfunda hjá Framkvæmdasýslu ríkisins, sem hafa verið birtar kemur fram að upphaflega átti að vinna verkið í fyrra en því hafi verið frestað vegna ónógs tíma til framkvæmda. Stefnt að verklokum í lok sumars 2022.

Verk hófst í júli 2022 og flutningi efnis með þyrlu var lokið þann 26. júlí. Einnig hafa verið flutt efni og borar eftir um 30 ára gamlan vegslóða sem lagfæra þurfti til að komast að vinnusvæði.
Verktaki er byrjaður á því að bora fyrir bergboltum og fyrir testboltum fyrir hönnuði. Um 11 borholur voru komnar fyrir grindur þann 26.07.2022. Borholur fyrir grindur eru að jafnaði með 1.5 metra af klöpp neðst í holu enn sem komið er. Einnig kom fram á verkfundi að holur eru fullar af vatni og veldur það vandræðum við vinnu verktaka. Borholur sem boraðar vour 27.06.2022 voru með ca. 2 metra dýpt í klöpp. Búið er að bora fyrir þremur testholum sem eru grautaðar nú þegar.

11.08.2022 er verktaki búinn að bora 116 holur og vinna gengur vel þrátt fyrir mikla bleitu og rigningar. Hraði verks er það mikill að hugsanlega klárast verk fyrir næsta verkfund.

Verkið var boðið út í júní 2021. Lægstbjóðandi var Köfunarþjónustan ehf sem bauð til þess að vinna verkið fyrir 69.208.221 kr. með VSK. Kostnaðaráætlunin var 128.299.000 kr. Einnig barst tilboð frá UAB Gridinta 178.640.060 kr.

Mynd: Framkvæmdasýsla ríkisins.

DEILA