Bolungavík: búið að úthluta 8 leiguíbúðum við Vitastíg

Vitastígur 1 í Bolungavík. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Þegar er búið að úthluta 8 leiguíbúðum við Vitastíg 1 í Bolungavík sem auglýsar voru í síðasta mánuði. Alls verða íbúðirnar 14 og eru 10 þeirra tilbúnar til afhendingar. Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri segir að það sé biðlisti eftir íbúðunum og fyrirsjáanlegt er að allar íbúðirnar muni ganga út. Hann segir að meðal leigjenda sé bæði fólk sem er að flytja sig til innan bæjarins og talsvert af nýjum íbúum.

Það er húsnæðisamvinnufélagið Skýlir sem annast rekstur og stjórn þess fer með úthlutun íbúða. Leigufjárhæðin er ákveðin í reglugerð og er byggð á því að húsaleiga standi undir tilgreindum kostnaði. Ekki er gert ráð fyrir hagnaði né arðgreiðslum til eigenda félagsins.

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri.

Jón Páll Hreinsson minnti á hugmyndir sem settar hafa verið fram um 40 – 60 nýjar íbúðir við Aðalstræti og sagði eftirspurnina núna sýna að full þörf sé á fleiri íbúðum. „Við Aðalstræti eru frábærar lóðir í boði og þar liggja mikil tækifæri fyrir fjárfesta sem vilja fjárfesta í vænlegu fasteignaverkefni í Bolungavík.“

DEILA