Bolungavík: bæjarráð gerir athugasemdir við gjaldtöku í jarðgöngum

Nýja laxasláturhúsið í Bolungavík. Eldislaxinn færir ríkissjóði meiri tekjur af hverju kg í gjaldi en þorskurinn.
Hið nýja laxasláturhús í Bolungavík. Mynd: Björgvin Bjarnason.

Bæjarráð Bolungarvíkur gerir athugasemdir um fyrirhugaða gjaldtöku í öllum jarðgöngum landins segir í umsögn bæjarráðsins um áform um frumvarp til laga um heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu og rekstur samgönguinnviða og segir hana aðför að samfélaginu. Vill bæjarráðið að fundin verði sanngjörn leið sem snúi að öllum notendum vegakerfisins. Bæjarráðið lýsir hins vegar yfir ánægju með áform um að flýta uppbyggingu samgöngumannvirkja og minnir á að það hefur verið baráttumál Vestfirðinga um áratuga skeið að flýta fyrir samgöngubótum í fjórðungnum.

Gjaldtaka íþyngjandi í Bolungavík umfram aðra landshluta

Um gjaldtökuna segir: „Í tilfelli Bolungarvíkur eru allar samgöngur til og frá sveitarfélaginu um Bolungarvíkurgöng og munu þessi áform verða til þess að lögð verða íþyngjandi gjaldheimta á íbúa og fyrirtæki í Bolungarvík umfram aðra landshluta sem ekki þurfa jarðgöng til að komast til og frá sinni heimabyggð.“

Aðför að samfélaginu í Bolungavík

„Mikil uppbygging er framundan, með fólksfjölgun og stórauknum flutningum til og frá bænum sem mun leiða til enn hærri skattheimtu ef þessi áform munu ná fram að ganga. Teljum við þessi áform vera aðför að samfélaginu í Bolungarvík og vegið sé að hagsmunum íbúa, atvinnulífs og frekari uppbyggingu. Byggðin verður þá ekki samkeppnishæf við sveitarfélög sem ekki treysta á samgöngur með jarðgöngum og síður eftirsóknarverð fyrir nýja íbúa að setjast hér að. Þegar umferðargjöld verða endurskoðuð og tekin upp notkunargjöld, eins og samgönguáætlun sem var samþykkt árið 2019 gerir ráð fyrir óskar bæjarráð Bolungarvíkur eftir því fundin verði sanngjörn leið til gjaldtökunnar þar sem hluteigendur séu allir notendur vegakerfis í landinu og jafnræðissjónarmið íbúa haft að leiðarljósi“. 

DEILA