Bíldudalsvegur um Mikladal endurbyggður

Framkvæmdir standa nú yfir við endurbyggingu Bíldudalsvegar (63) um Mikladal á um 5 kílómetra kafla frá Aðalstræti á Patreksfirði og inn Mikladal að Gleraugnavötnum. Frá þessu er sagt í framkvæmdafréttum Vegagerðarinnar.

„Núverandi Bíldudalsvegur er orðinn þrjátíu til fjörutíu ára gamall og var byggður með mun minni og léttari umferð í huga en nú er. Vegurinn er mjór og burðarlag hans orðið illa farið. Hann þolir því illa umferð þungra vörubifreiða en hún hefur aukist mjög samfara atvinnuuppbyggingu á svæðinu. Talið er að um þrjátíu vörubílar fari um Mikladal á degi hverjum.
Borgarverk var með lægsta tilboðið í uppbyggingu Bíldudalsvegar um Mikladal á fimm kílómetra kafla. Framkvæmdasvæðið nær frá enda Aðalstrætis á Patreksfirði og að Gleraugnavötnum í Mikladal. Verkið skiptist í tvo verkhluta. Fyrri er um 2,2 km og nær frá Patreksfirði og örlítið fyrir ofan Dagmálagil. Síðari áfanginn endar um 300 metrum fyrir ofan Gleraugnavötn og skal vera lokið í lok ágúst 2023.

Vegurinn verður að mestu endurbyggður í vegstæði núverandi vegar með nokkrum lagfæringum. Gert er ráð fyrir að aðeins sé unnið við um 900 metra af veginum í einu og að umferð framhjá vinnusvæðinu verði stýrt með ljósum.
Breidd vegarins verður eftir endurbyggingu 8 metrar að meðtöldum vegöxlum. Þar sem sett verða upp vegrið verður heildarbreidd vegarins 9 metrar.“

Núverandi vegur um Mikladal hefur verið ófullnægjandi um langt skeið og þar hafa orðið bílveltur, síðast í nóvember síðastliðinn.

DEILA