ASÍ: Vestfirðingar þakka Drífu og harma afsögn hennar

Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga.

Báðir formenn verkalýðsfélaganna á Vestfjörðum skrifa undir yfirlýsingu 11 formanna stéttarfélaga innan Starfsgreinasambandsins sem send var út í gær. Það eru þau Finnbogi Sveinbjörnsson formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga og Hrund Karlsdóttir, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Bolungavíkur.

Í yfirlýsingunni er Drífu Snædal, fyrrverandi forseta ASÍ þakkað fyrir farsælt og gefandi samstarf undanfarin 10 ár. Fyrst sem framkvændastjóri SGS og síðustu fjögur ár sem forseti ASÍ. Þá segja formennirnir að þeir harmi „þær aðstæður er urðu til þess að hún sá sig knúna til afsagnar. Það á enginn að þurfa að upplifa sig við þannig aðstæður á sínum vinnustað.Verkalýðshreyfingin á að vera fyrirmyndar vinnustaður og verður að koma í veg fyrir að starfsfólk hennar upplifi sig eins og Drífa gerði.“

Athygli vekur að Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins er ekki meðal þeirra sem undirrita yfirýsinguna, né Sólveig Jónsdóttir formaður Eflingar. Finnbogi Sveinbjörnsson sagði í samtali við Bæjarins besta að þegar menn verða formenn samtaka verði þeir að verða vissir um að þeir tali í nafni samtakanna og vísar þar til þess að Vilhjálmir Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins var í viðtali á Bylgjunni í gærmorgun og ræddi þar ólguna í verkalýðshreyfingunni sem kom rækilega upp á yfirborðið með afsögn Drífu Snædal. Greinilegt er að ummæli Vilhjálms í viðtalinu hafa ýtt við öðrum formönnum félaga innan Starfsgreinasambandsins, en þar eru 19 félög. Efling er þar langstærst og ræður það ferðinni að mestu leyti innan sambandsins.

Lýðskrumið selur

Drífa Snædal gagnrýndi hópuppsagnir starfsmanna hjá Eflingu og Finnbogi minnti á að hann hefði tekið undir þá gagnrýni og hefi mátt þola að vera settur úr framkvæmdastjórn Starfsgreinasambandsins í kjölfarið. „Það eru skrýtnir tímar í verkalýðshreyfingunni í dag . Lýðskrumið selur“ sagði Finnbogi. „Það á kannski rétt á sér stundum, en ekki í lýðræðislegri verkalýðshreyfingu sem þarf að ná fram kjarabótum og réttarbótum. Drífa hefur staðið sig vel, einkum gagnvart jaðarsettum hópum og ég fullyrði að hún hefði aldrei fengið svona meðferð ef hún hefði verið karlmaður. Það er skömm að því að Drífa hafi þurft að hrökklast frá fyrir það að vilja ekki una framferði þeirra sem hafa verið með hótanir til þess að ná sínu fram.“

DEILA