Arnarfjörður: greina þarf valkosti við strenglögn

Kort Landsnets.

Skipulagsstofnun hefur ákveðið, að fenginni athugasemd, að lagning nýs 66 kV jarðstrengs á milli tengivirkis við Mjólká og Bíldudals með sæstreng yfir Arnarfjörð kalli á verulega breytingu á aðalskipulagi eins og Bæjarins besta greindi frá í síðustu viku.

Í athugasemd Sigurðar Jóns Hreinssonar, Ísafirði, er bent á að það vanti upplýsingar um fleiri sæstrengi í firðinum, en ljósleiðarastrengur liggur á tveimur stöðum yfir fjörðinn. Vill hann að leiðaval verði endurmetið með tilliti til þess og gætt að áhrifum sæstrengsins á rækjuveiðar og á skipalægi í Auðkúlubót jafnframt því sem hann stingur upp á breyttri leið, bæði fyrir jarðstrenginn og sæstrenginn.

Vegna öryggissvæðis beggja megin við sæstreng muni strengurinn takmarka það svæði sem unnt er að stunda rækjuveiðar og telst Sigurði til að tillaga Landsnets um sæstrenginn kalli á 9 ferkílómetra stórt öryggissvæði þar sem rækjuveiðar verða ekki heimilar.

Varðandi Auðkúlubótina þá muni leið Landsnets útiloka algerlega notkun legufæra við Auðkúlu og geti því ekki komið til greina af þeirra hálfu.

Atugasemd á fyrri stigum málsins hafi verið mætt með því að færa landtökuna í austurátt, sem „er reyndar þvert á hugmyndir landeiganda sem og rækjusjómanna, því þessir aðilar hafa alltaf talað fyrir því að landtakan færist vestar, nær þeim stöðum sem þegar er landtaka á fjarskiptastrengjum og gerir þennan nýja sæstreng styttri og þar af leiðandi með minna öryggissvæði.“

Inn á kortið af Arnarfirði er rauðmerkt leið Landsnets. Gulir eru núverandi ljósleiðara.

Sigurður J. Hreinsson hefur merkt inn þrjár mögulegar leiðir sem hann telur að hafi minni áhrif á aðra nýtingu fjarðarins og væru sennilega álíka góðir kostir og sá sem Landsnet kynnti, jafnvel betri. Græn lína sem væri samsíða núverandi ljósleiðara frá Tjaldanesi til Bíldudals. Blá lína sem væri samsíða ljósleiðaranum sem liggur frá Tjaldanesi um Langanes og þaðan áfram til Bíldudals. Og svo fjólublá lína sem væri jarðstrengur úr Mjólká fram á Langanes og þaðan sæstrengur til Bíldudals.

DEILA