Arctic Fish: fær að nota ásætuvarnir í Dýrafirði

Eldissvæðin í Dýrafirði. Myndin er úr starfsleyfinu.

Umhverfisstofnun hefur gefið út breytingu á starfsleyfi Arctic Sea Farm hf. í Dýrafirði. Breytingin felur í sér heimild til notkunar ásætuvarna á eldiskvíunum. Fyrirhuguð breyting var auglýst í sumar og barst engin athugasemd. Ákvörðun Umhverfisstofnunar er kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála innan eins mánaðar frá birtingu ákvörðunar Umhverfisstofnunar, sem var 22. ágúst 2022.

Ásætur eru að mestu gróður en aðrar lífverur setjast einnig á bæði gróður og netin í sjókvíunum og vaxa þar. Á sumarmánuðum aukast þessar ásætur til muna og geta orðið það miklar að möskvar netanna vaxa til. Við þetta eykst heildarþyngd kvíanna sem eykur álag á allan búnað, kvíin tekur á sig meiri sjó en jafnframt kemst minna af nýjum ferskum sjó inn í kvíina og súrefnisflæði skerðist þar af leiðindum líka. Ásætuvarnirnar vinna gegn þessu.

Heimilt er samkvæmt starfsleyfinu að ala allt að 10.000 tonna lífmassa í Dýrafirði á fjórum tilgreindum svæðum. Eru að jafnaði tvö svæði í notkun og tvö í hvíld.

Leyfið, sem var upphaflega gefið út þann 6. maí 2021, gildir til sama tíma 2037.

DEILA