Act alone: allt gekk einstaklega vel

„Act alone gekk alveg einstaklega vel“ segir Elfar Logi Hannesson. „Allt var bara alveg einstakt aðsókn, stemning og svo veðrið sem gat ekki verið betra. Þetta var í raun bara einsog í gamla daga þegar Act alone var haldin síðast sem var 2019.“

Elfar segir að aðstandendur hátíðarinnar séu þakklát öllum sjóðunum og fyrirtækjunum sem studdu hátíðina og mörg þeirra hafa fylgt hátíðinni allt frá upphafi, 2004.

„Án allra listamannanna væri þetta heldur ekki eins einleikið og það var. Ekki má gleyma starfsmönnum hátíðarinnar sem gerðu hvert kraftaverkið á fætur öðru. Hátíð af þessari stærð er ekki hægt að gera nema hafa góða áhöfn og það höfðum við sannlega. Síðast en ekki síst er vert að þakka hina miklu gestrisni Súgfirðinga sem umvefja Actið. Nú skreppur maður bara aðeins heim í Dýrafjörð að leggja sig og svo á helginni byrjar maður að undirbúa næsta Act. Árið 2023 verður Act alone haldin 10. – 12. ágúst og umsóknir eru þegar byrjaðar að streyma inn.“

Frá hátíðinni. Myndir: Act alone.

DEILA