Vinir Ferguson og Vestfjarða – Gegn einelti

Í gær miðvikudaginn 13. júlí hófu þeir Grétar Gústavsson og Karl Friðriksson för sína um Vestfjarðarleiðina á traktorum. Með því ætla þeir að láta gott af sér leiða og safna styrkjum fyrir Vináttu, forvarnaverkefni Barnaheilla gegn einleti. Félagarnir vonast eftir að sjá sem flesta við startið.

Skorað hefur verið á þá félaga að klára hringferðina, en sumarið 2015 fóru þeir hringinn í kringum landið að undanskildum Vestfjörðum. Eftir hringferðinna gáfu þeir út bókina Vinir Ferguson, hringferð um landið gegn einelti og rann salan á bókinni óskipt til styrktar Vináttu.

 Grétar og Karl hafa verið vinir í um sextíu ár og kynntust í sveitinni Valdarási í Fitjadal. Þegar Massey Ferguson 35X vélin kom í sveitina var eins og Rolls Royce væri kominn á hlaðið á bænum. Þeir áttu sér þann draum í æsku að keyra um landið á þessum traktori og var það uppsprettan að hringferð þeirra félaga. Þeir keyrðu hringinn á traktornum árið 2015.

 Líkt og í fyrra skiptið er meginmarkmið Grétars og Karls með ferð sinni að styrkja Vináttu, forvarnaverkefni Barnaheilla, sem beinist að því að fyrirbyggja einelti gegn börnum á leik- og grunnskólaaldri. Unnið er með Vináttu í leik- og grunnskólum auk frístundaheimila um land allt, en verkefnið hefur verið innleitt í yfir 65% allra leikskóla á landinu og um 30% grunnskóla. Blær, fjólublár bangsi, er helsta táknmynd Vináttu og mun bangsinn að sjálfsögðu ferðast með félögunum sem munu stoppa við í Vináttuskólum á Vestfjörðum.

Félagarnir lögðu í hann frá Staðarskála þann 13. júlí og verða átta daga á leiðinni. Þeir munu koma í mark þann 20. júlí á Hvanneyri.

Á vefsíðunni: https://www.barnaheill.is/vinirferguson er hægt að styrkja verkefnið eða með því að senda SMS skilaboðin ,,Barnaheilla í síma 1900, og gefa kr. 1.900 til styrktar baráttunni gegn einelti.

Ferðaáætlun:

13. júlí – Staðarskáli – Hólmavík

14 júlí – Hólmavík – Hamar

15 júlí – Hamar – Ögur

16 júlí – Ögur – Ísafjörður

17 júlí – Ísafjörður – Bíldudalur

18 júlí – Bíldudalur – Flókalundur

19 júlí – Flókalundur – Reykhólar

20 júlí – Reykhólar – Hvanneyri

DEILA