Vesturbyggð: ljósleiðari og þriggja fasa rafmagn

Yfirlitsmynd. Hvesta er utan Bíldudals og Bakkadalur þar utar.

Vesturbyggð hefur fengið samþykki fyrir lagningu ljósleiðara og rafmagns í Ketildölum, Arnarfirði. Um er að ræða 9 km leið frá Hvestu til Grænuhlíðar í Bakkadal og verður lagður bæði ljósleiðari og þriggja fasa rafmagnsstrengur. Lás ehf annast verkið og verður það unnið í september og október í haust.

Þórkatla Soffía Ólafsdóttur, formaður bæjarráðs Vesturbyggðar segir að sveitarfélagið hafi 5 m .kr. til ljósleiðaralagna í ár og fari stærstur hluti þess í verkefnið í Ketildölum. Einnig sé á dagskrá að ljúka við ljósleiðaralagningu á Barðaströnd. Átaksverkefnið Ísland ljóstengt styrkir Vesturbyggð. Elías Jónatansson, Orkubússtjóri segir að kostnaður við þriggja fasa rafmagnsstrenginn hlaupi á tugum milljóna króna.

DEILA