Vestri: stuðningur bæjarins brást og karfan afsalar sér sæti í 1. deild karla og ekkert kvennalið

Frá vinstri: Sigrún Camilla, Snæfríður Lillý, Lisbeth Inga, Gréta, Sara Emily og Hera. Mynd: vestri.is

Sú ákvörðun bæjarráðs Ísafjarðarbæjar að falla frá 4,8 m.kr. vilyrði fyrir styrk til körfuknattleiksdeildar Vestra varð til þess að draga þurfti saman seglin í kostnaði að sögn Shiran Þórissonar, formanns deildarinnar. Ákveðið var að draga kvennalið Vestra úr 1. deildinni og falla frá sæti karlaliðsins í 1. deild og taka frekar þátt í 2. deild. Kostnaður við þátttöku í 2. deild karla er mun minni en í 1. deildinni. Leiknar eru tvær umferðir í stað þriggja í 1. deildinni og ekki verða fengnir 3-4 leikmenn til þess að styrkja liðið.

Shiran segir að ákvörðun bæjarráðsins nú hafi verið afdrífarík. Vandi Vestra sé uppsafnaður rekstrarvandi, einkum vegna covid19, og hann hverfi ekki og niðurstaðan sé sú að draga þurfi saman seglin.

Ingólfur Þorleifsson, fyrrverandi formaður deildarinnar tekur ákveðið til orða og segir að „þúfan sem veltir hlassinu er afturköllun nýs meirihluta Ísafjarðarbæjar á tæplega 5 milljóna styrk sem búið var að samþykkja fyrir kosningar. Hann hefði dugað til að koma deildinni fyrir vind. Það er greinilegt að fólki er nákvæmlega sama um þetta starf, og það svíður meira en tárum taki.“

Þann 28. mars sl samþykkti bæjarráð :

„Bæjarráð tekur jákvætt í erindi körfuknattleiksdeildar Vestra um að bæta tap á aðgangseyri um kr. 4.800.000, og felur bæjarstjóra að ganga til samninga við deildina vegna þessa og leggja viðauka fyrir bæjarstjórn til samþykktar.“

Arna Lára Jónsdóttir, núverandi bæjarstjóri segir að bæjarráð hafi ákveðið á fundi sínum 11. júlí sl. að vísa styrkbeiðnum frá íþróttafélögunum til frekari skoðunar í fjárhagsáætlun 2023 þar sem ekki er í svigrúm í áætlun ársins.

„Eftir að bæjarráð tók jákvætt í erindi kkd. Vestra í mars var óskað eftir gögnum um fjárhagstap frá félögum vegna Covid 19 og geri ég ráð fyrir að umfangið hafi verið meira en fyrri meirihluti hafi gert ráð fyrir. Ekkert var unnið frekar með málið og þar af leiðandi ekki lagt til samþykktar í bæjarstjórn.“

Samþykkt bæjarráðs frá 11. júlí :

„Bæjarráð telur ekki vera svigrúm innan fjárhagsáætlunar sveitarfélagsins 2022 til að veita styrki til íþróttafélaganna. Bæjarráð felur bæjarstjóra að taka upp samtal við HSV um fjárhagsstöðu félaganna eftir heimsfaraldur og leggur til að málið verði skoðað frekar í fjárhagsáætlunargerð ársins 2023.“

DEILA