Vestfirðir og Orkusjóður

Nýlega úthlutaði Orkusjóður 900 milljónum í styrki vegna orkuskiptaverkefna en sjóðurinn styður við verkefni sem miða að því að draga úr notkun á olíu og auka hlutdeild vistvænnar orku.

Vestfirsk fyrirtæki og einstaklingar voru fyrirferðarmikil þegar kom að úthlutun styrkja, en um 135 milljónir komu í hlut Vestfirðinga. Um er að ræða spennandi verkefni á sviði hleðslustöðva, fóðurpramma, vetnis og rafvæðingu báta ásamt öðrum metnaðarfullum verkefnum.

Sum þessara verkefna eru brautryðjendaverkefni en fyrsti vetnisbáturinn og fyrstu rafmagnsbátarnir á Íslandi verða líklega með heimahöfn á Vestfjörðum. Þetta sýnir að samfélagið á Vestfjörðum ætlar sér stóra hluti þegar kemur að orkuskiptum og nýsköpun á sviði orkumála.

Okkur langar að óska öllu því fólki sem fékk styrk úr Orkusjóði til hamingju og tökum ofan fyrir þeim sem þora að taka áhættu og eru óhrædd við að prófa nýja hluti þegar kemur að orkunýtingu. Einnig er við hæfi að þakka Orkustofnun fyrir metnaðarfullt starf við að ýta undir orkuskiptin með styrkveitingum.

Við hjá Bláma erum stolt af því að hafa komið að nokkrum þessara verkefna og hvetjum alla sem hafa áhuga á vistvænni orkunýtingu að hafa samband.

Þorsteinn Másson. Framkvæmdastjóri Bláma

https://orkustofnun.is/orkustofnun/rad-og-nefndir/orkusjodur/

DEILA