Tjöruhúsið: húsaleigan hækkar um 123% – hagnaður 49 m.kr.

Húsaleigan sem Tjöruhúsið ehf greiðir fyrir Tjöruhúsið á Ísafirði hækkar um 123% í nýgerðum samningi frá þeim eldri. Fyrri samningur var gerður 2018 og gilti til mars 2022. Í honum var húsaleigan 1.851.000 kr fyrir árið. Í nýgerðum samningi sem gildir frá 1. apríl 2022 til 31. mars 2027 er ársleigufjárhæðin 4.759.500 kr. Að teknu tilliti til hækkunar fjárhæðar í eldri samningi m.v. neysluverðsvísitölu þá hækkar ársleigan úr 2.132.000 kr. í 4.759.500 kr. eða um 123%.

Skuldbindingar leigutaka eru auknar varðandi opnunartíma og nú skal vera opið júní, júlí og ágúst en áður var skilyrði að opið yrði um helgar þessa mánuði. Þá skuldbindur leigutaki sig til að hafa og halda við loftræstikerfi, á eigin kostnað, sem samræmist þörfum brunakerfisins í Neðstakaupstað.

Samningurinn er gerður við Tjöruhúsið ehf Skarphéðinsgötu 18, Reykjavík. Stjórnarformaður er Ragnheiður Halldórsdóttir og eigandi að öllu hlutafé er Haukur Sigurbjörn Magnússon.

Tekjur félagsins á síðasta áru voru 94 milljónir króna og rekstrargjöld 45 m.kr. Hagnaður varð 49 m.kr. Helstu rekstrarliðir voru laun 16,6 m.kr og kostnaðarverð seldrar vöru 14,7 m.kr.

Hrein eign félagsins í árslok var 66,6 m.kr.

DEILA