Tjöruhúsið: ársleigan 4.759.500 kr.

Tjöruhúsið.

Ísafjarðarbær og Thöruhúsið ehf hafa gert fimm ára samning um leigu Tjöruhússins ehf í Reykjavík á Tjöruhúsinu í Neðstakaupstað á Ísafirði undir veitingarekstur.

Leigutaki tekur á leigu 1. hæð Tjöruhússins, í Neðstakaupstað á Ísafirði, og þann hluta 2. hæðarinnar sem er yfir eldhúsinu, til veitingahúsreksturs. Leigutaka er jafnframt heimilt að nýta til rekstursins útisvæði við Tjöruhúsið.

Leigutaki leggur til önnur þau áhöld sem þarf til rekstursins og ekki fylgja frá leigusala, og leigutaki greiðir orkukostnað fyrir notkun á leigutímabilinu. Leigutaki skuldbindur sig til að hafa og halda við loftræstikerfi, á eigin kostnað, sem
samræmist þörfum brunakerfisins í Neðstakaupstað.

Ísafjarðarbær leggur til sameiginlegt salerni í húsi Eldsmiðjunnar. Leigusali ber kostnað af þrifum salerna á opnunartíma Byggðasafnsins, 15. maí til 15. september, en utan þess tíma skal leigutaki greiða kostnað af þrifum og ber leigutaki ábyrgð á því að salernin séu snyrtileg. Leigutaki og leigusali skipta með sér helgarþrifum á salernum líkt og verið hefur
í samráði leigutaka og forstöðumanns Byggðasafnsins.

Opnunartími skal vera samningsatriði milli leigutaka og leigusala þó með þeim skilyrðum að opið verði mánuðina júní, júlí og ágúst.

Byggðasafn Vestfjarða hefur rétt til að fella sýningar safnmuna að annarri starfsemi í húsnæðinu í samráði við leigutaka.

Samningur þessir gildir í fimm ár frá og með 1. apríl 2022 til og með 31. mars 2027.

DEILA