Þingeyri: afsláttur af gatnagerðargjöldum

Aðalstræti 29 Þingeyri.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að veita 30% afslátt af álögðum gatnagerðargjöldum vegna viðbyggingar bílskúrs á lóð Aðalstrætis 29, á Þingeyri. Gatnagerðargjöldin eru reiknuð 1.191.073 kr en verða 833.751 kr.

Byggja á 84 fermetra viðbyggingu við bílskúr við húsið. Bílskúrinn er 33,9 fermetrar að stærð. Um er að ræða gamalt hús, byggt árið 1900. Það var fært á lóðinni og steyptar voru nýjar undirstöður og kjallari og gamla húsið endurbætt verulega. Grunnflötur hússins er 62,5 fermetrar og efri hæðin er 50,6 fermetrar. Húsið stóð á 4900 fermetra lóð en hún var nýlega minnkuð í 850 fermetra.

Eigandinn, sem keypti húsið af Ísafjarðarbæ árið 2006, fór fram á lækkun eða niðurfellingu gatnagerðargjalda með þeim rökum að Þingeyri væri í verkefninu brothætt byggð og að skortur væri á íbúðarhúsnæði.

Í lögum um gatnagerðargjald er sveitarstjórn heimilt að að lækka eða fella niður gatnagerðargjald af einstökum lóðum í
sveitarfélaginu við sérstakar aðstæður, svo sem vegna þéttingar byggðar, atvinnuuppbyggingar, lítillar ásóknar í viðkomandi lóð eða eftirspurnar eftir leiguhúsnæði.

Í nýlegri samþykkt kaupstaðarins um gatnagerðargjöld er er ákveðið að af húsi, sem er eldra en 15 ára, verði ekki innheimt gatnagerðargjöld af fyrstu 30 fermetrunum. Þá er heimilar að lækka eða fella niður gjöldin við sérstakar aðstæður.

Var það niðurstaða bæjarráðs að þetta ákvæði ætti við og því samþykkt að veita 30% afslátt af gatnagerðargjöldunum af því sem umfram 30 fermetra stækkun hússins.

DEILA