Tálknafjörður: 28,8 m.kr. styrkur frá Fiskeldissjóði

Frá Tálknafirði.

Tálknafjarðarhreppur fékk nýlega úthlutað 28,8, m.kr. styrk úr Fiskeldissjóði til uppbyggingar á hafnarsvæðinu.

Í samræmi við nýtt deiliskipulag hafnarsvæðis eru gerðar umbætur á umhverfi, götur byggðar upp og malbikaðar auk þess sem öryggi og umhverfi gangandi vegfaranda og gesta er bætt. Í umsókninni segir að markmið verkefnisins sé að bæta starfsumhverfi fyrirtækja og fólks á hafnarsvæðinu á Tálknafirði, gera fjörðinn snyrtilegri og eftirsóknarverðari bæði til heimsókna og búsetu sem og að styðja við aukinn fjölbreytileika og kraft í mann- og atvinnulífi í sveitarfélaginu.

Heildarkostnaður við verkefnið er áætlaður 49,9 m.kr.

Ólafur Þór Ólafsson, sveitarstjóri segir að í ár muni verða farið í lagna- og malbikunarframkvæmdir sem eru hluti af verkefninu og gert er ráð fyrir því að sækja um að nýju á næsta ári vegna þeirra þátta sem út af standa sem snúa að bílastæðum, göngustígum, yfirborðfrágangi osfr.

Þessar vikurnar standa yfir framkvæmdir við endurbyggingu Strandgötunnar. Það verkefni er unnið á vegum Vegagerðarinnar en í samstarfi við Tálknafjarðarhrepp. Samhliða malbikun Strandgötunnar og göngustígsins að skólanum verður farið í tvö önnur malbikunarverkefni á vegum Tálknafjarðarhrepps í byrjun ágúst. Lækjargatan verður malbikuð og jafnframt lagt malbik á hluta gatna á hafnarsvæðinu.

Viðsnúningur með fiskeldinu

Í umsókninni um styrk segir: „Síðustu áratugir hafa verið tímabil samdráttar á Tálknafirði. Uppbygging tengd fiskeldi á síðustu 10 árum hefur snúið þessari þróun við. Samdrátturinn undanfarin ár hefur dregið úr framkvæmdamætti samfélagsins og það má því segja að með þeirri uppbyggingu sem fylgir fiskeldinu standi Tálknfirðingar frammi fyrir tvöföldu verkefni: að sinna uppsafnaðri framkvæmdaþörf síðust ára um leið og styðja þarf við uppbyggingu
í vaxandi samfélagi.“

DEILA