Suðureyri – vatnsskortur sem var fyrirsjáanlegur

Sundlaugin Suðureyri.

Sundlaugin á Suðureyri hefur verið lokuð undanfarna daga vegna vatnsskorts. Í gær var tilkynnt á vefsíðu Ísafjarðarbæjar að vegna bilana í vatnsveitunni á Suðureyri og að lítið kalt vatn fengist þá þyrfti að loka sundlauginni á Suðureyri þangað til vandinn hefur verið leystur. 

Elías Guðmundsson, framkvæmdastjóri Fisherman á Suðureyri segir að vandinn sé að vatnslögnin geti ekki flutt nægilegt vatn inn í þorpið og að lausnin þurfi að auka flutningsgetuna. Elías segir að vandinn hafi verið fyrirsjáanlegur og minnir á að hann hafi í aðsendri grein á Bæjarins besta á síðasta ári greint frá því að flutningsgeta vatnskerfisins væri ekki nóg og vandinn myndi versna þegar reykhús Fiskherman yrði tekið í notkun, en það þarf verulegt magn af köldu vatni.

Ísafjarðarbær hefur fengið styrk frá Fiskeldissjóði til þess að endurnýja vatnslögn í Staðardal og er hluta verksins lokið, en enn á eftir að leggja nýja lögn í Staðardalnum að vatnslindunum. Elías Guðmundsson segir vandann ekki verða leystan fyrr en því verki lýkur, líklega á næsta ári.

DEILA