Strandveiðar, – sjóarinn sem hafið hafnaði

Ráðherra sjávarútvegsmála hefur boðað að hún muni á haustþingi mæla fyrir skiptingu strandveiðikvótans á milli landsvæða. Af skrifum hennar má ráða að hún telji að íslenska strandveiðikerfið sé skiptimynt í þrátefli stjórnmálanna og hafi þann megintilgang að styrkja búsetu. Þarna er um stóran misskilning að ræða að mínu mati því íslenska ríkinu var með svokölluðum SBSR dómi uppálagt að koma á fiskveiðikerfi sem tryggði jafnræði til veiða úr auðlindinni, – þannig varð strandveiðikerfið til. Í því fólst að þeir sem vildu sækja sjóinn þyrftu ekki að vera háðir því að vera handhafar fiskveiðikvóta heldur gætu veitt undir ákveðnum skilyrðum. Nú er strandveiðin á fjórtánda ári og skráðir bátar í kerfinu 702, landanir um 13.500 og heildaraflinn orðinn tíu þúsund tonn. Ljóst er að mestur afli hefur borist á land á svæði A eða rúmur helmingur af heild, en á annað þúsund tonn á hverju hinna svæðanna fyrir sig. Þetta er sjálfsagt það sem ráðherrann hnýtur um þegar hún talar í réttlætingartón um að ákveðnar útgerðir nái ekki að veiða úr kerfinu á „kjörtíma þ.e. þegar að fiskurinn er stærstur og verðmætastur“. Ekki er auðvelt að festa fingur á því hvert verið er að fara í þessari orðræðu nema með því að setja upp pólitísku gleraugun því staðreyndin er sú að strandveiðikerfið eins og það hefur verið undanfarin fjögur ár stuðlar að áðurnefndu jafnræði. Það tryggir aðgengi þeirra sem hafa ekki kvóta (reyndar krókaaflamarksbáta líka) og  byggir á jöfnuði með sama fjölda veiðidaga óháð landsvæði auk þess sem öllum er heimilt að veiða sama magn af fiski upp úr sjó.

Við ráðum því ekki hvar fiskurinn kýs að dvelja hverju sinni en ráðasnjallir sjómenn vita hvar hans er helst að vitja og hagkvæmast að sækja. Í því felst sjálfbærni sem er grundvöllur allrar skynsamlegrar auðlindanýtingar hvar sem er í heiminum í dag og okkar fiskveiðistjórnunarkerfi hvílir á. Mér finnst að okkar ágæti matvælaráðherra ætti að skoða það hvort algjört afnám svæðaskiptingar kæmi til greina í stað þeirra breytinga á strandveiðikerfinu sem hún er að boða. Þá mætti hún alveg íhuga það hvort ekki sé kominn tími á í ljósi umhverfisjónarmiða að veiddum afla sé að jafnaði landað á nærhafnir þ.e. þær hafnir sem næstar eru fiskimiðunum.

Jóhannes Aðalbjörnsson

Sjávarútvegs- og viðskiptafræðingur

Suðureyri

DEILA