Samgöngufélagið: stuðningur við færslu hringvegarins um Borgarnes

Mikill stuðningur kom fram við færslu hringvegarins um Borgarnes út fyrir byggðina í könnun sem unnin var fyrir Samgöngufélagið. Þátttakendur gáfu hugmyndinni einkunnina 5,06 á skalanum 0 til 6 , þar sem 0 er mjög andvígur og 6 þýðir mjög hlynntur. Færsla hringvegarins er í aðalskipulagi Borgarbyggðar. Í könnuninni voru þátttakendur beðnir um afstöðu til ákveðinnar útfærslu á nýrru staðsetningu hringvegarins sem samræmist aðalskipulaginu. Við þá tillögu var einnig góður stuðningur og var einkunnin 4,91.

Sama mynstur kom fram í svörum við báðum spurningum þegar svörin voru greind í þrjá hópa eftir búsetu. Hjá þeim öllum var stuðningur við færsluna, en minnstur meðal íbúa í Borgarnesi, meiri hjá öðrum íbúum Borgarbyggðar og mestur hjá þátttakendum sem búsettur eru utan Borgarbyggðar.

Í könnuninni tóku 995 þátt. Langstærsti hluti þátttakenda er búsettur utan Borgarbyggðar eða 75%. Í Borgarnesi búa 15,3% svarenda og 9,7% í Borgarbyggð utan Borgarness. Áttatíu prósent svarenda eru karlar og 20% konur.

Um var að ræða netkönnun þar sem þátttakendur gátu ýmist svarað gegnum farsíma eða tölvu. Gagnasöfnun fór fram dagana 19. maí – 10. júní 2022. Könnunin var öllum opin og gat hver sem er dreift könnuninni og hvatt til þátttöku. Spurt var : Almennt séð, hversu andvíg(ur) / hlynnt(ur) ert þú færslu Hringvegar um Borgarnes og Hvernig líkar þér sú tillaga að legu Hringvegar um Borgarnes sem sett er fram í þessari könnun. Könnunin var unnin af fyrirtækinu ENVALYS.

Video af könnuninni:

https://www.dropbox.com/s/c6cullb2wm84xn4/borganes_promo.mp4?dl=0

DEILA