Óverjandi skattpíning

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra, boðar frumvarp um gjaldtöku í jarðgöngum landsins. Þessum nýju sköttum er ætlað að standa undir kostnaði við Fjarðarheiðargöng og að einhverju leyti öðrum jarðgöngum einnig. Eftir sigurgöngu Framsóknarflokksins í sl. alþingiskosningum, kemur á óvart að Sigurður Ingi þakki landsmönnum stuðninginn með boðun á aukinni skattpíningu. Flokkur fólksins  var stofnaður til þess að berjast fyrir auknum réttindum og bættum kjörum þeirra sem höllustum fæti standa í samfélaginu og munum við aldrei hvika frá þeim markmiðum okkar. Flokkur fólksins mótmælir því harðlega þessum vilja ráðherrans til enn frekari skattlagninga sem er hrein og klár atlaga að möguleikum fátækts fólks til ferðalaga innanlands. Fólksins sem á engan kost á að kaupa sér fínar utanlandsferðir.

Íslenskir skattgreiðendur greiða nú þegar vel yfir 70 milljarða króna til ríkisins árlega í álögur og gjaldtöku af ýmsum toga vegna bifreiðaeigna sinna.  Það er víst ekki nóg því nú ætlar ríkisstjórnin að bæta við enn einum skattaliðnum á þá  sem ferðast innanlands. Mér er með öllu fyrirmunað að skilja, hvers vegna þessir gífurlegu fjármunir sem ríkissjóður innheimtir af bílaflotanum okkar hafa ekki verið nýttir til endurbóta, viðhalds og uppbygginga samgöngumannvirkja í miklu mun meira mæli en raun ber vitni.  Ef Sigurð Inga skortir enn fé til framkvæmda þá væri ekki úr vegi að þjóðin fengi frekari rentur af sjávarauðlind sinni og þó fyrr hefði verið.  Allt annað en aukna gjaldtöku á almenning.

Fjöldi fólks býr við það stóran hluta ársins að eiga þess ekki kost að ferðast á milli byggðalaga á öruggan hátt.  Ef skattleggja á íbúa landsbyggðarinnar umfram aðra fyrir það eitt að ferðast með öruggum hætti milli byggða, þá er það ekkert annað en mismunun á grundvelli búsetu.

Kjarni vandans er áberandi skeytingarleysi stjórnvalda gagnvart aðstæðum fólks, sérstaklega þeirra sem eru að sligast nú þegar undan skattaokri og dýrtíð sem á sér fáar hliðstæður á byggðu bóli. Einstaklingar af holdi og blóði með tilfinningar, vonir og þrár um betra lífi. Ekki lífvana súlurit eða excel skjöl á tölvuskjá í einhverju ráðuneytinu. Það ætti að vera forgangsverkefni stjórnvalda að  losa þetta fólk úr köldum faðmi skilningsvana kerfis. Jarðgöng eru frábær svo lengi sem þau leggja ekki auknar álögur á efnalítið fólk. Það er ekki nóg að klippa á borða við hátíðlega athöfn, sanngirni og réttlæti þarf að ráða för.

Inga Sæland.

Höfundur er formaður Flokks fólksins

DEILA