Norðurtanginn tekur breytingum

Norðurtangahúsið eftir breytingar.

Glöggir vegfarendur hafa tekið eftir breytingum sem eru að verða á útliti Norðurtangahússins sem nýverið fékk húsnúmerið Sundstræti 38 í stað 36, sem það deildi áður með samliggjandi byggingu.

„Það er gaman að sjá húsið taka svona stakkaskiptum útlitslega. Við í Kerecis köllum það HN húsið – sem stendur fyrir Hátæknisetrið Norðurtanga“ segir Guðmundur Fertram forstjóri Kerecis.

Unnið er að því að setja nýja glugga í húsið og skv. upplýsingum frá Kerecis eru þeir flestir settir á staði þar sem upprunalega voru gluggar fyrir, en fyllt uppí á fimmta áratugnum. Segja má því að verið sé að endurheimta upprunalegt útlit hússins. Einnig er verið að vinna að því að flytja stigagang hússins frá norðurhlið þess aftast í húsið. Ekki stendur til að gera breytingar á innra skipulagi hússins en þar verða áfram gömlu opnu vinnslurýmin þar sem áður fór fram fiskvinnsla Hraðfrystihússins Norðurtanga hf., sem oft var kallað HN.

„HN húsið skiptir miklu máli í atvinnusögu Ísfirðinga eins og margir vita. Hér ætlar Kerecis að koma sér fyrir með skrifstofu- og tæknirekstur og endurvekja þannig öflugan rekstur í húsinu. Afi minn, Gummi Sölva í fiskibúðinni, starfaði hér í þessum byggingum af álúð og eljusemi í áratugi og ekki skemmir fyrir að vera með starfssemi Kerecis á sama stað og hann starfaði,“ segir Guðmundur.

Norðartangahúsið fyrir breytingu.


DEILA