Nauteyri: Háafell eykur seiðaframleiðsluna

Nauteyri.

Háafell ehf hefur fengið framkvæmdaleyfi hjá Strandabyggð fyrir boranir á vinnslu- og rannsóknarholum við Nauteyri en leitað er að meira af heitu vatni.

Fyrirhugaðar vinnsluholur verða um 500 m djúpar og fyrirhugaðar rannsóknarholur verða um 100 m djúpar. Borstæðið er malarfylltur púði sem er 15x10m eða 150 m2 að flatarmáli.

Umhverfis- og skipulagsnefnd Strandabyggðar kynnti sér umsókn Háafells ehf. og taldi fylgigögn fullnægjandi og að framkvæmdin væri í samræmi við aðalskipulag Strandabyggðar 2010-2022 og gildandi deiliskipulag svæðisins. Sveitarstjórn samþykkti umsókn Háafells ehf. og jafnframt var skipulagsfulltrúa falið að gefa út leyfið í samræmi við reglugerð um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012.

Þorgeir Pálsson, oddviti og sveitarstjóri í Strandabyggð segir að sveitarstjórn sé hlynnt því að skoða alla kosti til atvinnuuppbyggingar og það eigi einnig við um fiskeldi.  „Það er fiskeldi í Strandabyggð sem sveitarfélagið hefur stutt og við höldum áfram á þeirri braut.“

DEILA