MIKIL UPPSVEIFLA FUGLALÍFS Í SKJALDFANNARDAL

Indriði Aðalsteinsson, bóndi Skjaldfönn. Mynd:Kristinn H. Gunnarsson.

Indriði Aðalsteinsson, bóndi á Skjaldfönn vakti athygli á fjölbreyttu fuglalífi í dalnum í pistli á Facebook síðu sinni. Rekur hann fuglalífið sem er margvíslegt og blómstrandi. Er Indriði ekki i vafa um að því er að þakka að tófunni er markvisst haldið niðri með vetrarveiði.

„Í gær og dag var ég að slá 12-14 he.tún á Seláreyrum, hér framan bæjar og varð fyrir töluverðum og að segja má gleðilegum töfum, vegna mjög óvenjulegra fuglaunga mergðar í slægjunni. Fyrirferðamestir voru stelkarnir, flestir þó með fleyga unga, en Norðri var þeira magnaðastur. Hann elti mig milli spildna, stillti sé upp við norðurhornin og goggaði í sig skordýr og annað góðgæti í túnrótinni þegar grasið sópaðist frá og engir aðrir fuglar máttu þar nærri koma fyrir frekjunni í honum. Iðuglega hvarf hann frá mér að sjá, undir vélina, enn altaf slapp hann, flaug þá gjarnan sinna erinda en alltaf komin að norðurhorninu aftur, þegar ég var búinn að fara hringinn.

Jaðrakar eru fjölgandi nýbúar hér,fóru að sjást milli 1990-2000 og voru a.m k. 4 pör í slægjunni með 2-3 unga hvert, gulgráa, stóra, en virðast verða seint fleygir en eru orðnir miklir hlaupagarpar. Það sama verður ekki sagt um sandlóuunga og lóu og lóuþrælsunga og það er voðin vís ef ég sé þá ekki í tæka tíð. Spóarnir láta öllum illum látum yfir vélinni, oft 4-5 í einu og kría á hreiðri í túnjaðri margrenndi sér á ámoksturstækjagálgann án árangurs. Stokkönd með beðju af ungum á eftir sér, flúði í ofboði eftir skurðinum, þegar vélin birtist á skurðbakka og óðinshanar stunduðu skriftir á hverjum kvíslapolli milli túna. Hrossagauksmóðir með 2 nýklakta unga bjargaðist með naumindum og þröstur með annað varp í skurðbakka, kvartaði sáran yfir vélagnýnum.

Rjúpan er í mikillri uppsveiflu og 3 slíkar hlupu út túninu, út í móa, að vísu ungalausar. Hvað veldur þessari ánægjulegu fiðurfésaukningu? Mitt svar er einfalt og viðblasandi.

Hér í dalnum er tófunni haldið niðri með vetrarveiði. Ekkert fannst á grenjum af slíku hyski í vor og ef borið væri út inn á Mið-Strönd og Ísafirði, og því sinnt af alúð, mætti jafnvel draga mjög úr eða jafnvel hætta grenjaleit að vorinu.“

DEILA