Lengjudeildin: Vestri gerði jafntefli við HK

Frá leik Vestra við HK fyrr í sumar. Knötturinn í marki HK eftir jöfnunarmark Vestra. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Karlalið Vestra lenti í kröppum dansi í leik sínum á laugardaginn gegn HK í Lengjudeildinni. Leikið var á Olísvellinum á Ísafirði. Kópavogsliðið byrjaði vel og komst í tveggja marka forystu í fyrri hálfleik en Nicolaj Madesen minnkaði muninn fyrir leikhlé. HK náði aftur tveggja marka forystu í upphafi seinni hálfleiks og staðan vænleg fyrir þá og liðið sat á toppi deildarinnar eins og staðan var í öðrum leikjum deildarinnar.

Vestramenn hertu róðurinn og náðu að minnka muninn á 60. mínúti leiksins og skömmu fyrir leikslok skoraði Friðrik Þórir Hjaltason jöfnunarmarkið.

Með þessum úrslitum er Vestri áfram í baráttu um efstu sæti deildarinnar þegar kepppnin í deildinni er hálfnuð og aðeins fimm stig skilja að toppliðið Fylki og Vestra sem er í 8. sæti. Fylki er með 21 stig og Vestri með 16 stig. Ellefu umferðir eru eftir sem gefa allt að 33 stig.

DEILA