Laxeldi: einn eldislax veiddist í laxveiðiá í fyrra

Í skýrslu Hafrannsóknarstofnunar, Samantekt vöktunar vegna áhrifa sjókvíaeldis á íslenska laxastofna 2021, sem kom út í síðasta mánuði, kemur fram að aðeins einn eldislax hafi veiðst á stöng í laxveiðiá. Það var í Hafralónsá á Norðausturlandi, en í henni veiddust 186 laxar í fyrra. Óvíst er að laxinn sé úr innlendu eldi og gæti hann verið frá Færeyjum.

Niðurstöður erfðagreiningar á Hafralónslaxinum sýnir að hann er ekki undan þeim klakhængum fyrir innlenda eldið sem greindir voru og valdir í samráði við MAST. Að svo stöddu er því ekki hægt að rekja laxinn til kvíar eða kvíaþyrpingar. Laxinn mældist 79 cm og 3,8 kg og því talið að hann hefði farið í kví sem seiði árið 2019 eða 2020 og miðaðist greining klakhænga við það. Líklegar ástæður fyrir því að ekki tókst að greina fiskinn til uppruna eru að fiskurinn var eldri en talið var eða að hann hafi strokið í Færeyjum þar sem hluti framleiðslunnar er af fyrrnefndum Sagastofni.

Alls voru það þrír laxar sem Hafrannsóknarstofnun fékk í fyrra til upprunagreiningar og reyndust vera úr eldi. Fyrrgreindur Hafralónsárlax og tveir unglaxar sem veiddust í Arnarfirði. Annar fiskanna kom frá Arnarlaxi sem, í samráði við Fiskistofu, hafði lagt út net í kjölfar þess að gat uppgötvaðist á netapoka fyrirtækisins og hinn laxinn veiddist á stöng í Sunndalsá í Trostansfirði. Í Sunndalsá er ekki sérstakur laxastofn.

Haustið 2021 voru sett út 10 milljón seiða í eldiskvíar við landið. Af öllum þeim milljónum seiða sem voru í kvíum á síðasta ári er því aðeins vitað með vissu um tvo laxa úr innlendu eldi sem veiddust utan kvíanna. Hvorugur þeirra gekk upp í laxveiðiá.

Innblöndun eldisfiska við náttúrulega laxastofna er einn helsti áhættuþáttur við laxeldið þar sem erfðablöndunin er talin veikja stofnana. Vöktun á náttúrulegum stofnum er því mikilvægur þáttur í mati á hættu á erfðablöndun. Mikilvægt er talið að geta fylgst með hvort og í hvaða magni strokulaxar úr eldiskvíum ganga í ár og hafa verið settir upp fiskiteljarar útbúnir myndavélum. Tæplega 20 teljarar hafa verið í rekstri í ám hér á landi um lengri tíma og eru 12 þeirra útbúnir
myndavél.

Í niðurstöðukafla skýrslunnar um fiskiteljararna segir:

„Nokkuð skýrar myndir hafa fengist af þeim fiskum sem gengið hafa um teljarana og hafa engir laxar verið metnir sem upprunnir úr sjókvíaeldi samkvæmt ytri einkennum á þeim. Það er í ágætu samræmi við upplýsingar úr stangveiði, en fáir laxar af eldisuppruna hafa greinst þar.“

DEILA