Langibotn í Arnarfirði í sölu til Guðmundar í Brim

Langibotn í Geirþjóðfsfirði.

Landgræðslusjóður er að ganga frá sölu á jörðinni Langibotn í Geirþjófsfirði til Eyjavina ehf. Þuríður Yngvadóttir, stjórnarformaður Landgræðslusjóðs segir að ekki sé búið að ganga frá öllum pappírum en að söluferli sé í gangi.

Félagið Eyjavinir ehf eru í eigu Guðmundar Kristjánssonar útgerðarmanns í gegnum félag hans Fiskitangi ehf.

Eignir Eyjavina eru tæpar 200 milljónir króna og eigið fé er 20 m.kr. Fiskitangi ehf er hins vegar með bókfærðar eignir í lok árs 2020 upp á 3,4 milljarða króna og eigið fé 2,8 milljarðar króna. Helsta eign þess eru skammtímakröfur og fyrirframgreiddur kostnaður að fjárhæð 2,3 milljarðar króna.

Síðastliðið haust setti Landgræðslusjóður jörðina á söluskrá. Jörðin var í ábúð fram til 1966 og eignaðist Skógrækt ríkisins þá jörðina. Síðar urðu makaskipti á eignum milli Skógræktarinnar og Landgræðslusjóðs og eignaðist sjóðurinn þá jörðina. Ásett verð var 130 milljónir króna.

Þurí’ur segir að verðið á Langabotni verði ekki gefið upp.

DEILA