Knattspyrnan: öruggur sigur Vestra í gærkvöldi

Pétur Bjarnason með boltann og þá er hætta á ferðum. Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Vestri vann góðan sigur á Þrótti frá Vogum á Vatnsleysuströnd í kvöldleiknum í gærkvöldi á Olísvellinum á Ísafirði. Leiknum seinkaði og hófst ekki fyrr en á tíunda tímanum og lauk um ellefu leytið.

Vestri hóf leikinn af krafti og Nacho Gil gerði tvö mörk á fyrstu mínútum leiksins. Skömmu fyrir leikhlé var Silas rekinn af velli fyrir leikbrot. Það virtist ekki hafa nein áhrif á örugg tök Vestra á leiknum og í seinni hálfleik bættu þeir við tveimur mörkum. Pétur Bjarnason skoraði gott mark á 71. mínútu og Deniz Yaldir gerði lokamarkið skömmu fyrir leikslok.

Eftir leikinn er Vestri kominn í 6. sæti deildarinnar með 22 stig, jafnmörg stig og liðin í 4. og 5. sæti en verri markamun. Raunar er Vestri aðeins stigi á eftir liðinu í 3. sæti en tvö efstu liðin Fylkir og HK hafa náð nokkurri forystu og eru með 31 og 30 stig. Þróttur er sem fyrr í neðsta sæti deildarinnar.

Gunnlaugur Jónasson er fastagestur á vellinum. Hér er hann með Sigríði dóttur sinni.

DEILA