Knattspyrna: Vestri upp í 5. sætið

Vestramenn fagna marki. Mynd: fotbolti.net.

Vestri gerði góða ferð til Selfoss í gærkvöldi þegar liðið mætti toppliðinu í Lengjudeildinni. Eftir vondan skell á heimavelli á laugardaginn , þegar Vestri tapaði illa fyrir botnliði KV 2:4, sneri liðið blaðinu við og vann Selfoss með marki Deniz Yaldir skömmu fyrir leikhlé. Sigurinn var enn óvæntari í ljósi þess að snemma í seinni hálfleik fékk markaskorarinn rautt spjald fyrir leikbrot og Vestri lék með einum manni færra það sem eftir var.

Íþróttavefurinn fotbolti.net segir sigurinn hafa verið verðskuldaðan og að Selfoss hafi ekki skapað sér eitt einasta færi í öllum leiknum. Pétur Bjarnason var útnefndur maður leiksins.

Eftir sigurinn er Vestri kominn í 5. sæti deildarinnar eftir 10 umferðir af 22 með 15 stig og er aðeins 4 stigum frá efsta sætinu.

DEILA