Knattspyrna: Glæsilegur sigur Vestra

Mark ársins í uppsiglingu. Gróttumenn skalla boltann út fyrir teiginn, þar tók Madsen á móti honum og þrumaði boltanum í slána og inn, andartaki eftir að myndin var tekin. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Karlalið Vestra vann í dag glæsilegan sigur á Gróttu frá Seltjarnarnesi. Heimamenn gerðu 3 mörk gegn einu frá Seltirningum. Daninn Nicolaj Madsen var tvímælalaust maður leiksins. Hann gerði tvö góð mörk og það seinna var í flokki með mörkum ársins. Bæði mörk hans komu eftir hornspyrnu, sem skallað var út fyrir teig en þar tók Madsen boltann á lofti og hamraði hann í netið. Seinna markið var sérlega glæsilegt, þrumuskot í slána og inn.

Vestramenn áttu góðan dag og höfðu undirtökin í fyrri hálfleik. Staðan var 1:0 í leikhléi. Grótta byrjaði vel í seinni hálfleik og jafnaði fljótlega með góðu skallamarki. Leikurinn snerist aftur Vestra í vil eftir seinna mark Madsen. Eftir það þurfti Grótta að sækja meira og við það opnaðist vörn þeirra og Silas slapp inn fyrir og gerði þriðja markið af nokkru harðfylgni.

Vestri er nú með 19 stig og er í 7. sæti, en Grótta er í 4. sæti með 22 stig. Næsti leikur Vestra er á Ísafirði á miðvikudaginn, þegar liðið tekur á móti botnliðinu Þrótti í Vogum.

Þessi fastagestir létu sig ekki vanta. Hrafn Norðdahl og Magnús Reynir Guðmundsson. Magnús Reynir spáði því að leikurinn færi 3:1, sem varð svo raunin.

DEILA