Kerecis markaðsvirði 85 milljarðar króna

Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri Kerecis.

Kerecis hefur lokið við 100 milljón dollara viðbótafjármögnun með sölu á nýju hlutafé og aðkomu nýrra hluthafa. Að lokinni þessari fjármögnunarlotu er ætlað markaðsvirði Kerecis 620 milljónir dala, sem jafngildir um 85 milljörðum króna að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá félaginu.

Eignarhalds- og fjárfestingafélagið KIRKBI, kennt við dönsku LEGO-fjölskylduna, kemur nýtt inn í hluthafahóp Kerecis og fulltrúi KIRKBI tekur sæti í stjórn.

„Kerecis er afar skapandi fyrirtæki, sem með hagnýtingu á hliðarafurðum úr sjávarútvegi er orðið farsælt hátæknifyrirtæki á sviði lækningavara“, segir Niklas Sjöblom, framkvæmdastjóri langtímafjárfestinga hjá Kirkbi og nýr stjórnarmaður í Kerecis. „KIRKBI byggir á sjálfbærum gildum í fjárfestingum og eignarhaldi sínu og sjálfbærni Kerecis passar vel við markmið okkar. Við erum sérlega áhugasöm um að styðja við enn frekari vöxt Kerecis sem og hvernig sjálfbæra tæknin nýtist til að auka batalíkur sjúklinga.“

Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og forstjóri Kerecis, segir komu KIRKBI í hluthafahópinn vera gæðastimpil á þá vegferð sem Kerecis hefur verið á undanfarin ár. „Þátttaka þeirra og annarra í hlutafjárútboðinu er okkur hvatning til enn frekari góðra verka á komandi árum“, segir Guðmundur Fertram. „Fjármögnunin gerir okkur kleyft að spýta í lófana og halda áfram hröðum vexti með það að markmiði að ná til enn fleiri sjúklinga um heim allan. Markmið Kerecis er að nýta náttúrulega sjálfbæra tækni fyrirtækisins til að verða leiðandi á heimsvísu í að græða skaðaðan líkamsvef þannig að eftir sitji náttúrulegur líkamsvefur án öra og lýta“.

DEILA