Kaldrananeshreppur: áhugi á tveimur virkjunum

Kort úr skýrslu Verkís um virkjunarkosti í Kaldrananeshreppi. Seljaá og Þverá eru merktar K1 og K2.

Fram kemur í fundargerð sveitarstjórnar í Kaldrananeshreppi að fyrirtækið Smávirkjanir ehf. hafi áform um að virkja Seljaá í landi Bólstaðar í Steingrímsfirði og Þverá í Bjarnarfirði í landi Svanshóls. Hugmynd að virkjunum byggir á gögnum úr skýrslu Verkís sem unnin var fyrir Vestfjarðastofu og dagsett er í mars 2020.

Undirbúningur virkjananna er á frumstigi en áætlað er að nýta sumarið 2022 vel til þess að rannsaka svæðið og ákvarða hvernig virkjun verður best fyrir komið. Óskað var eftir leiðsögn varðandi skipulagsvinnuna vegna virkjananna og hvernig þeim verður best háttað. Sveitarstjórnin segir í svari sínu gerir ráð fyrir því að breytingar á aðalskipulagi taki u.þ.b. eitt ár eftir að beiðni berst og vinna getur hafist. Vinna við deiliskipulag getur hafist um leið og beiðni berst og öll gögn liggja fyrir. Finnur Ólafsson, oddviti Kaldrananeshrepps sagði áhuga Smávirkjana vera góðs viti en of snemmt væri að slá neinu föstu um að til virkjanaframkvæmda kæmi.

Finnur Ólafsson, oddviti.

Virkjunarkostirnir eru báðir metnir hagkvæmir í skýrslu Verkís. Seljaá í Steingrímsfirði virkjar 265 metra fallhæð, uppsett afl er 2 MW og orkuframleiðslan er 9,22 GWh. Þverá virkjar 185 metra fallhæð, uppsett afl er 1,7 MW og orkuframleiðslan er 8,14 GWh.

DEILA