Jarðgöng: stefnt að gjaldtöku – afleit hugmynd

Dýrafjarðargöng. Hvað yrði gjaldið hátt? Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Stjórnvöld stefna að því að innheimta gjald fyrir akstur um jarðgöng. Þetta kemur fram í samgönguáætlun fyrir árið 2020-2034 sem Alþingi samþykkti 29.6. 2020. Hvernig gjaldtakan verður er hins vegar frekar óljóst.

Í samgönguáætluninni, sem Samgönguráðherra lagði fyrir Alþingi segir: „Gert er ráð fyrir að bein framlög af samgönguáætlun og jarðgangaáætlun standi undir helmingi framkvæmdakostnaðar jarðganga. Stefnt er að gjaldtöku af umferð í jarðgöngum á Íslandi. Sú innheimta mun fjármagna rekstur og viðhald ganganna, sem og að standa undir því sem uppá vantar í framkvæmdakostnað.“

Í framsöguræðu sinni skýrði ráðherrann þetta ekkert frekar, reyndar vék ekki einu orði að fyrirhugaðri gjaldtöku. Umhverfis- og samgöngunefnd gaf álit sitt á samgönguáætluninni. Meirihluti nefndarinnar, skipuð 6 þingmönnum Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Viðreisnar tók undir þessar hugmyndir að gjaldtöku, en hélt öllu opnu varðandi útfærsluna:

„Meiri hlutinn styður einnig þá framtíðarsýn að bein framlög úr samgönguáætlun og jarðgangaáætlun standi undir hluta framkvæmdakostnaðar jarðganga, og að gjaldtaka af umferð fjármagni hluta auk þess sem hún greiði fyrir rekstur og viðhald ganganna. Ekki er tímabært að taka afstöðu til frekari útfærslu á þessari fjármögnunaraðferð enda er niðurstaðan háð heildstæðri greiningu á henni.“

Í fjármálaáætlun ríkisins fyrir árin 2023-2027, sem Alþingi afgreiddi 29. mars 2022 er vikið að jarðgangaáætluninni. Þar segir að mótuð verði áætlun um uppbyggingu og fjármögnun jarðganga og stofnað opinbert félag um jarðgangagerð. Tilgangur félagsins er að hægt verði að framfylgja jarðgangaáætlun, þ.m.t. að fjárfesta í öryggi núverandi ganga og vinna að undirbúningi næstu ganga. Svo segir:

„Yfir 15 ára tímabil jarðgangaáætlunar er stefnt að því að bein framlög til gangagerðar nemi um 25 ma.kr. og muni sú upphæð standa undir helmingi framkvæmdakostnaðar. Það sem upp á vantar muni koma úr gjaldtöku af umferð í jarðgöngum. Fyrstu göng áætlunarinnar eru Fjarðarheiðargöng.“

Stóra málið í jarðgangagerð eru tvenn löng jarðgöng á Austurlandi og bæði til Seyðisfjarðar. Annars vegar er um að ræða göng frá Seyðisfirði til Egilsstaða, 13,3 km og kosta um 45 milljarða króna og hins vegar tvenn jarðgöng milli Seyðisfjarðar og Neskaupstaðar um Mjóafjörð. Þau göng verða samtals 12,3 km og kostnaður væntanlega einnig um 45 milljarða króna. Samtals yrði kostnaðurinn um 90 milljarðar króna.

Segja má í stuttu máli að gjaldtökuhugmyndin sé sett fram til þess að afla fjár fyrir öðrum göngunum á móti framlagi ríkisins sem myndi duga fyrir hinum göngunum. Með öðrum orðum, ætlast er til þess að vegfarendur um öll önnur jarðgöng á landinu greiði sérstakan vegatoll til þess að Seyðfirðingar geti fengið 90 milljarða króna jarðgöng í tvær áttir.

Á þessu er einföld lausn. Sú að sleppa öðrum göngunum. Seyðisfjörður fengi engu að síður fullkomnar vegasamgöngur. Þá er hægt að falla frá afleitum hugmyndum um jarðgangaskatt á Vestfjörðum og enn fráleitari hugmyndum um jarðgangaskatt um Hvalfjarðargöng, sem vegfarendur hafa nú þegar greitt með sérstöku gjaldi.

-k

DEILA