Ísafjarðarbær og Vestri knattspyrnudeild hafa gert milli sín samning um umsjá og umhirðu knattspyrnuvalla á Torfnesi og 1. hæð í Vallarhúsi Torfnesi. Samningstíminn er 15. apríl – 15. október 2022.
Ísafjarðarbær leggur til 1 stöðugildi á samningstíma sem miðast við launaflokk 121 samkvæmt kjarasamningum Samflots við sveitarfélögin árið 2021, eða alls kr.3.062.016 á samningstímanum.
Ísafjarðarbær greiðir fyrir að láta sanda grasvöllinn tvisvar sinnum yfir sumartímann. Ísafjarðarbær skal sjá til þess að sláttuvél sé tiltæk Knattspyrnudeild Vestra, meistaraflokki, þó að hámarki 150 daga á samningstímanum, án endurgjalds.
Knattspyrnudeild Vestra, meistaraflokkur, skal sjá um alla vinnu í kringum kappleiki sína.
Í minnisblaði sviðsstjóra skóla- og tómstundasviðs segir að samningurinn hafi engan auka kostnað í för með sér. Áður hafði forstöðumaður íþróttamannvirkja haft umsjá með knattspyrnuvallarsvæðinu. Hann hafði heimild til að ráða tvo sumarstarfsmenn í launaflokki 121, sem nú færist til knattspyrnudeildar Vestra á meðan félagið annast svæðið.
Einnig hafði forstöðumaður íþróttamannvirkja leigt sláttuvél af Golfklúbbi Ísafjarðar til að slá grasvöllinn á síðastliðnum árum, svo sá leigukostnaður er ekki nýr af nálinni.
Leggur sviðsstjórinn til að málið verði endurskoðað að samningstíma loknum og þá ákveðið hvernig fyrirkomulagið á knattspyrnuvallarsvæðinu verði um komandi ár.