Ísafjörður: nemendagarðar kosta 778 m.kr.

Væntanleg lóð nemendagarðanna er við Fjarðarstræti 20.

Kostnaður við 40 íbúða nemendagarða sem reisa á við Fjarðarstræti á Ísafirði er áætlaður 778 m.kr. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun samþykkti að veita 18% stofnframlag, 4% viðbótarframlag og sérstakt byggðaframlag vegna
byggingar framangreindra íbúða. Stofnframlagið verður 140 m.kr. , viðbótarframlagið 31 m.kr. og sérstaka byggðaframlagið 90 m.kr. Samtals nema framlög ríkisins 261 m.kr. Til viðbótar koma svo stofnframlög sveitarfélagsins sem eru 12% af byggingarkostnaði eða 93 m.kr. Samanlagt leggur hið opinbera fram 354 m.kr. af 778 m.kr. byggingarkostnaði. Mismunurinn verður fjármagnaður með langtímaláni frá HMS með 3,2% vöxtum.

Stofnunin lætur koma fram í staðfestingu sinni um úthlutun stofnframlaga að svo virðist að kostnaður við bygginguna sé vanmetinn og mælist til þess að farið verði í rýni á hönnun „ef byggingarkostnaður hefur verið vanmetinn, með það markmiði að minnka byggingu, í ljósi þess að ekki er heimilt að hækka stofnvirði umsóknar.“

Næstu skref eru að stofna húsnæðissjálfseignarstofnun, ljúka hönnun íbúðanna með samþykki HMS og að bæjarstjórn staðfesti rafræna húsnæðisáætlun sveitarfélagsins sem staðfestir þörf fyrir ofangreindar íbúðir. Þá þarf að ganga frá niðurrifi skúrabygginga sem stendur á þeirri lóð sem félagið hefur fengið úthlutað til uppbyggingar nemendagarða.

Í bókun bæjarráðs segir að það fagnar uppbyggingu nemendagarða við Háskólasetur Vestfjarða. „Rafræn húsnæðisáætlun Ísafjarðarbæjar er í lokavinnslu, og verðfyrirspurn vegna niðurrifs skúra hafi verið send út 4. júlí og er skilafrestur tilboða til 1. ágúst 2022.

DEILA