Ísafjarðarbær: samningurinn við Ísófit enn í gildi

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri.

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ segir að samningur bæjarins við Ísaófit sé enn í gildi og að verið sé að greiða eftir honum. 

Innviðaráðherra úrskurðaði þann 23. júní styrkveitingu Ísafjarðarbæjar til Ísófit ehf ólögmæta. Segir í úrskurðinum að ákvörðun Ísafjarðarbæjar hafi ekki verið í samræmi við fyrirmæli stjórnsýslulaga um jafnræðisreglu, rannsóknarreglu og lögmætisreglu.

Ísafjarðarbær greiðir Ísófit ehf. samkvæmt samningnum styrk að upphæð 420.000,- einu sinni í mánuði til næstu 3 ára frá 1. október 2020 til 31. september 2023.

Í svari sínu þann 1. júlí við fyrirspurn Bæjarins besta um viðbrögð Ísafjarðarbæjar við úrskurðinum sagði Arna Lára Jónsdóttir bæjarstjóri:

„Innviðaráðuneytið gerir alvarlegar athugasemdir málsmeðferðina og úrskurðar að ákvörðunin að semja við Ísófit hafi verið ólögmæt. Íbúar verða að geta treysti því að gætt sé jafnræðis innan stjórnsýslunnar. Í-listinn benti á sínum tíma á ýmsar brotalamir í samningagerðinni eins og kemur fram í langri bókun frá þeim tíma. Margt má læra af úrskurðinum og næstu dagar fara yfir forsendur úrskurðarins og áhrif hans á samninginn við Ísófit, en verið er að skoða það. Mikilvægt er að áfram verði þróttmikið íþróttastarf í bænum og að málareksturinn hafi hvorki röskun á því né óþarfan kostnað í för með sér.“

Nánari svör fást þegar bæjarstjóri kemur úr sumarleyfi.

DEILA