Ísafjarðarbær: ekki frekari styrkir til íþróttafélaga

lið Harðar í handknattleik. Mynd: Benedikt Hermannsson.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar telur ekki vera svigrúm innan fjárhagsáætlunar sveitarfélagsins 2022 til að veita styrki til íþróttafélaganna. Bæjarráð fól bæjarstjóra að taka upp samtal við HSV um fjárhagsstöðu félaganna eftir heimsfaraldur og leggur til að málið verði skoðað frekar í fjárhagsáætlunargerð ársins 2023.

Bæjarráðið hvetur íþróttafélögin til að sækja um mótvægisstyrki vegna heimsfaraldurs Covid-19 til mennta- og barnamálaráðuneytisins, en umsóknarfrestur er til 2. ágúst 2022.

Fyrir bæjarráðinu var erindi frá Héraðsssambandi Vestfirðinga með greinargerð um stöðu íþróttafélaga innan HSV sem telja sig hafa orðið fyrir tekjutapi vegna heimsfaraldurs covid-19.

Þar kemur fram að í mars síðastliðinn tók bæjarráðið jákvætt í erindi körfuknattleiksdeildar Vestra um að bæta tap á aðgangseyri um kr. 4.800.000, og fól bæjarstjóra að ganga til samninga við deildina vegna þessa og leggja viðauka
fyrir bæjarstjórn til samþykktar.

Gerð er ennfremur grein fyrir fjárhagsstöðu annarra félaga og deilda Vestra. Fram kemur að handknattleiksdeild Harðar skuldar 14 m.kr. í leigu. Knattspyrnudeild Vestra missti af 500 þúsund kr. tekjum vegna covid19 og að kostnaður við undanúrslitaleik í bikarkeppninni varð 5,8 m.kr. þar sem flytja varð leikinn suður vegna vallaraðstæðna í stað þess að leikurinn hefði gefið góðar tekjur. Blakdeild Vestra var rekin með 2,4 m.kr. tapi á síðasta ári og heildartap Skíðafélags Ísfirðinga á covid19 tímabilinu 2019-21 var um 4,8 m.kr.

DEILA