Háafell: fyrsti fóðurpramminn kom í dag

Bestla að koma með Ögurnes að bryggju á Ísafirði. Mynd: Gauti Geirsson.

Fyrsti fóðurprammi Háafells kom til Ísafjarðar í dag. Dráttarskipið Bestla lagði af stað með prammann þann 17. júní frá Tallinn í Eistlandi þar sem hann var smíðaður. Það er norska fyrirtækið Akvagroup sem smíðar prammann en hann tekur 450 tonn af fóðri, er 22 metrar á lengd og 12 metrar á breidd. Um borð er skrifstofa, eldhús, salerni og aðstoða fyrir starfsmenn Háafells.

Pramminn hefur fengið nafnið Ögurnes.

Pramminn verður staðsettur í Vigurál undan Skarðsströnd á eldisstaðsetningu Háafells. Með tilkomu fóðurprammans er tryggð jöfn og góð fóðrun á staðsetningunni. Fóðurpramminn er útbúinn spenni fyrir landtengingu og hefur Háafell unnið að undirbúningi landtengingarinnar ásamt Eflu og Orkubúi Vestfjarða. Ljósavélar um borð verða því aðeins varaafl og pramminn knúinn grænni orku úr landi.

Ögurnes í Ísafjarðarhöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Háafell býður öllum áhugasömum að koma á að skoða fóðurprammann í innri höfninni á Ísafirði fyrir framan Edinborg mánudaginn 4. júlí á milli klukkan 16 og 18. Léttar veitingar verða í boði.

DEILA