Flateyri: byggðaþróunarverkefni ekki hrint í framkvæmt

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþm.

Fram kemur á Alþingi í svari innviðaráðherra við fyrirspurn frá Höllu Signýju Kristjánsdóttur, alþm. um aðgerðir í kjölfar snjóflóða á Flateyri að sértækt byggðaþróunarverkefni í sjávarútvegi sem skilgreint var í tillögum aðgerðahópsins, en hann var skipaður var í kjölfar snjóflóðanna á Flateyri árið 2020, hafi ekki verið hrint í framkvæmd.

Aðgerðahópurinn setti fram tillögur um fimmtán aðgerðir sem allar geta haft jákvæða þýðingu fyrir framtíðarþróun samfélagsins og uppbyggingu.

Starfshópinn skipuðu Teitur Björn Einarsson lögmaður, fulltrúi fjármála- og efnahagsráðherra, formaður, Lísa Kristjánsdóttir aðstoðarmaður forsætisráðherra, Hermann Sæmundsson skrifstofustjóri í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, Þórdís Sif Sigurðardóttir bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar og Steinunn Guðný Einarsdóttir varabæjarfulltrúi í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar.

Vildu tvöföldun sérstaka byggðakvótans

Nefndin lagði til að komið yrði á fót byggðaþróunarverkefni í sjávarútvegi í samstarfi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, Ísafjarðarbæjar og Byggðastofnunar. Verkefnið miði að því að auka svigrúm og ráðstöfun á
nýtingu aflaheimilda í því skyni að aukna fjölbreytni atvinnulífs á Flateyri, t.a.m. á sviði fiskeldis, og styrkja þar með byggðafestu. Verkefnið væri til þriggja til sex ára.

Benti nefndin á í rökstuðningi sínum að fordæmi væri fyrir því að fordæmi væru fyrir því að sérstakur byggðakvóti Byggðastofnunar væri tvöfaldaður í kjölfar skyndilegra áfalla. Slíkar aðstæður eru uppi á Flateyri að mati starfshópsins segir í tillögunni, en skömmu fyrir snjóflóðin hafði Byggðastofnun ráðstafaði nýlega 400 tonna sérstökum byggðakvóta til vinnsluaðila á Suðureyri sem á móti er gert að tryggja ríflega 20 störf á Flateyri við vinnslu á aukaafurðum.

Sérstaki byggðakvótinn skilar 30 störfum

Í svari ráðherrans er hins vegar rakið að samkvæmt samkomulagi Byggðastofnunar við heimamenn o.fl. sem gildir fyrir fiskveiðiárin 2018/2019–2023/2024 legði Byggðastofnun árlega til 400 þorskígildistonn en bolfiskurinn er unninn í vinnslu Íslandssögu á Suðureyri.

„Samningsaðilar skuldbinda sig á móti til að koma upp veiðum og vinnslu á sæbjúgum og krossfiski og vinnslu afurða úr roði og hryggjum, ásamt sauðfjárhornum, bæði til manneldis og sem gæludýrafóður. Gert er ráð fyrir að um 20 störf skapist eða verði viðhaldið á Flateyri með þessari starfsemi. Með samkomulaginu er því verið að feta sig inn á þá braut sem talað er um í tillögu aðgerðahópsins, að beita sértækri úthlutun aflamarks til að styðja við nýsköpun og atvinnuþróun í öðrum greinum en hefðbundnum sjávarútvegi. Samkvæmt upplýsingum frá samningsaðilum eru nú 25,5 störf við veiðar og vinnslu á Flateyri ásamt því að verkefnið hefur viðhaldið fimm störfum við fiskvinnslu á Suðureyri. Verkefnið stendur því beint að baki rúmlega 30 störfum á atvinnusvæðinu, auk þess að styðja við afleidd störf í ýmiss konar þjónustu.“ segir að lokum í svarinu.

DEILA