Er Svandís Svavarsdóttir að sigla Strandveiðikerfinu í strand

Óðinn Gestsson.

Einn af kostum kvótakerfisins er fyrirsjáanleiki, menn geta skipulagt sig allt að ári fram í tímann með framleiðslu og sölu á afurðum til sinna viðskiftavina sem treysta á að fá vöruna afhenta.

Strandveiðikerfið er einn þáttur í kvótakerfinu, mismikilvægur fyrir fyrirtækin í landinu, þó er það þannig að margir treysta á þetta sem atvinnu í 48 daga á ári og geta haft góðan ávinning af veiðunum og  fiskvinnslan og starfsfólkið hefur ávinnig af vinnslu þessa hráefnis. Fyrirtækið sem ég stend fyrir og rek hefur á undanförnum árum gert ráð fyrir þessum afla í sínum plönum til þess að halda úti órofinni starfsemi allt árið, þó höfum við farið hægar yfir í kringum jól og áramót þegar veður eru hvað verst og erfitt að sækja hráefni. Almennt má segja að afli strandveiðibáta skili hráefni inn í vinnslun fyrir tveggja mánaða vinnslu, nú hefur það verið skert um 25% hið minnsta með þeim ákvörðunum sem teknar hafa verið af ráðherra. Hér eru margir í sjokki og reyna að finna aftur fast land undir fót, en það er erfitt því er hætt á að einhverjir fari illa útúr ástandinu og gefist upp.

Þegar ráðherra tók ákvörðun um að auka í pottinn til strandveiða, tók ráðherra það ma af Frístundaveiðibátum sem voru háðir því að leigja til sín heimildir af ríkinu á afsláttarkjörum, nú er það ekki hægt lengur og því er starfsemi þeirra fyrirtækja í uppnámi vegna þess. Þessir aðilar seldu sínum viðskiftavinum ferðir á síðasta ári og höfðu enga möguleika á því að bregðast við, köld gusa í andlit þeirra.

Það hefur verið í umræðunni að það þurfi að taka veiðiheimildir einhversstaðar, færa á milli. Ég legg til að ráðherra færi veiðiheimildir frá rallskipunum sem fá veiðiheimildir utan kerfisins og eru því ekki inní útreikningum til aflamarks á hverjum tíma, þetta er gert af þeirri stofnun sem sér um að segja okkur hvað megi veiða Hafrannsóknunarstofnun. Það má undrun sæta að það gildi ekki sömu reglur um þetta og almennt gerist að allt eigi að vera inni í aflamarkinu. Við erum að tala um Hafró.

Ég hvet Ráðherra til þess að að endurskoða ákvörðun sína, svo hægt sé að bregðast við á næsta fiskveiðiári og að þá geti fyrirtæki og einstaklingar gert ráðstafanir til þess að gera eitthvað annað. Það er bundið í lög að Strandveiðimenn geti róið í 12 daga í mánuði og mér er til efs að hægt sé að fara framhjá því og visa til þess að potturinn sé búinn, til hvers var þá verið að setja hámarksdaga. Sérstaklega í ljósi þess að Hafró virðist undanþeginn því að fara að eigin ráðgjöf.

Þá hvet ég Ráðherra til þess að ígrunda vel þær breytingar sem hún hyggst fara í, að mínu viti eru þær ekkert annað en kvótasetning, það er ekki það sem þetta kerfi gengur útá, og ætti Ráðherra að skoða vel hvaða afleiðingar þær geti haft, kerfið er jú sett á til þess að bregðast við því að einstaklingar geti komist inní kerfið og hafið rekstur, það er þrengt mjög að því með hugsun ráðherra, auk þess sýnist mér að það muni ala á óeiningu innan Strandveiðihópsins, nema að það sé tilgangurinn, hver veit.

Aðeins um fiskigengd á hinum ýmsu miðum við Ísland, það er oft þannig að fiskur gengur á misjöfnum tímum á svæði, skemmst er að minnast á grásleppuna frá í vor sem kláraðist vegna mikillar veiði við NA hornið á meðan að ekki var hafin veiði á öðrum stöðum, þannig mun þetta verða áfram og ekki sérstök ástæða að bregðast neitt sérstaklega við því, heldur að leyfa þessu að hafa sinn gang. Því þarf Ráðherra að ígrunda vel hvort hennar hugmyndir um breytta skiftingu séu það sem að rétt er.

Óðinn Gestsson

framkvæmdastjóri Fiskvinnslunnar Íslandssögu hf á Suðureyri.

DEILA